Nýjar upplýsingar hafa borist um orsök skrítinnar lyktar og bragðs sem kemur frá neysluvatni í Hveragerði.
Niðurstöður úr sýnatökum benda til þess að lyktar- og bragðgallar vatnsins orsakist af mengun úr jarðvegi. Mögulegt er að borun nýrrar neysluvatnsborholu á svæðinu hafi komið hreyfingu á jarðveginn og orsakað skert gæði neysluvatns en ekki öryggi. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands ítrekar að vatnið er ekki talið heilsuspillandi þrátt fyrir að gæði þess séu ekki viðunandi.
Greint er frá þessu á heimasíðu Hveragerðisbæjar.
Heilbrigðiseftirlit Suðurlands segir að útskolun úr kerfinu geti tekið tíma og á meðan það ástand varir geta þeir sem kjósa notað flöskuvatn.
„Ástand neysluvatnsins í Hveragerði er vel vaktað og regluleg sýni eru og verða áfram tekin og rannsökuð. Áfram er unnið að því að greina hvað orsakar bragð- og lyktargalla í neysluvatninu með margs konar prófunum, athugunum og útskolun úr vatnsveitukerfi bæjarins. Sú vinna er í forgangi hjá bænum,“ segir í tilkynningu frá bænum.