2.8 C
Selfoss

Hákon Þór og Perla Ruth íþróttafólk HSK 2024

Vinsælast

Skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson, Skotíþróttafélagi Suðurlands, og handknattleikskonan Perla Ruth Albertsdóttir, Umf. Selfoss, voru valin íþróttakarl og íþróttakona HSK 2024.

Sunnlenska greinir frá þessu.

Verðlaunin voru veitt á 103. héraðsþingi HSK sem haldið var í félagsheimilinu Aratungu í Biskupstungum í gær.

Hákon Þór keppti á Ólympíuleikunum í París síðasta sumar ásamt því að taka þátt í fjölda erlendra móta. Hákon varð í 23. sæti í haglabyssuskotfimi með 116 stig af 125 mögulegum á Ólympíuleikunum, en það er besti árangur Íslendings í greininni frá upphafi. Hákon stóð sig líka vel á mótum innanlands en hann varð Íslands- og stigameistari STÍ auk þess sem hann jafnaði sitt eigið Íslandsmet í greininni með 122 stig.

Perla Ruth var lykilleikmaður í meistaraflokksliði Selfoss sem vann Grill 66 deildina á síðasta keppnistímabili. Hún skoraði að meðaltali 7,85 mörk í leik og var í lykilhlutverki í varnarleik liðsins. Perla lék alla leiki íslenska landsliðsins á síðasta ári, meðal annars á Evrópumótinu sem fram fór í desember.

Nýjar fréttir