4.5 C
Selfoss

Sölku vettlingar

Vinsælast

Dfs.is og Dagskráin eru í samstarfi við Bobbýardætur. Þær eru með verslun að Breiðumörk 13 í Hveragerði og netverslunina bobby.is. Þær munu bjóða lesendum upp á sirka eina prjónauppskrift í mánuði og er uppskriftin að þessu sinni Sölku vettlingar fyrir börn.

Stærðir

Aldur 1 – 3 ára 4 – 6 ára 7 – 10 ára

Stærðir hér að ofan eru aðeins til viðmiðunar.

GARN:

Alpaca Storm frá Viking-garn 50 gr. = 133 m

Viking Merino frá Viking 50 gr. = 105 m

eða sambærilegt garn

Garnið fæst hjá Bobbý Hveragerði og bobby.is

Prjónfesta: 20-22 L / 10 cm á prjóna nr. 4 mm

Aldur 1 – 3 ára 4 – 6 ára 7 – 10 ára
Garnmagn m.v. Alpaca Storm 50 gr. 50 gr. 100 gr.

Prjónað á prjóna nr. 3.5 og 4 mm

UPPLÝSINGAR:

Við erum mjög hrifnar af vettlingum sem börnin geta sjálf klætt sig í án þess að hugsa um hvort vettlingurinn sé á vinstri eða hægri hönd.

Vettlingarnir eru prjónaðir í hring, með Crazy Trio prjónum eða sokkaprjónum.

ÞAÐ SEM ÞARF ER:

Crazy trio/sokkaprjónar nr. 3,5 mm og 4 mm.

Nál til frágangs, spotta eða snúru fyrir þumallykkjur.

UPPSKRIFT:

Fitjið laust upp 32 – 34 – 36 lykkjur á Crazy trio/sokkaprjóna nr 3.5 mm.

Prjónið stroff 1 slétt og 1 brugðin ca. 7 – 8 – 9 cm.

Prjónið eina umferð slétt og skiptið yfir í prjóna nr. 4 mm um leið.

Nú hefst útaukning fyrir þumli:

Prjónið eina lykkju aukið út til hægri, með því að taka upp bandið á milli lykkja, prjónið allar lykkjur þar til ein lykkja er eftir, þá aukið þið út til vinstri, prjónið síðustu lykkjuna.

Prjónið tvær umferðir án útaukningar.

Endurtakið þessar þrjár umferðir þar til þumallykkjur eru orðnar 12 – 14 – 14 – lykkjur.

Prjónið tvær umferðir í lokin, áður en þumalgatið er sett á band/snúru.

Þræðið þumallykkjurnar á snúru/band, fyrstu 6 – 7 – 7 og síðustu 6 – 7 – 7

Nú haldið þið áfram með belginn með því að fara framhjá þumallykkjunum, prjónið þar til vettlingurinn mælist frá stroffi (ath! Stroffið er ekki inn í mælingunni) ca. 8 – 9,5 – 11 cm.

Þegar lengd er náð þarf að fækka lykkjum, það er gert þannig:

Prjónið eina lykkju, takið tvær lykkjur saman, prjónið þar til þrjár lykkjur eru eftir af prjóni 2, takið tvær lykkjur yfir á hægri prjón, eins og þið ætlið að prjóna þær, prjónið þær saman og farið aftan í lykkjurnar, prjónið síðustu lykkju, hinn helming umferðarinnar prjónaður eins.

Prjónið næstu umferð slétt án úrtöku.

Þessar tvær umferðir eru endurteknar þar til lykkjum hefur fækkað það mikið að hægt er að þræða bandinu í gegnum lykkjurnar og herða að.

ÞUMALL:

Setjið þumallykkjurnar á prjóna nr 4 mm og prjónið í hring, ca. 3 – 4 – 4,5 cm.

Þá er lykkjum fækkað um fjórar lykkjur í næstu umferð, prjónið eina umferð án úrtöku.

Slítið frá og þræðið bandið í gegnum lykkjurnar og herðið að.

FRÁGANGUR:

Gangið vel frá öllum endum, við upphaf þumals getur hafa myndast smá gat, sem er lokað með endanum sem er inn í vettlingnum við þumalrótina.

Nýjar fréttir