5 C
Selfoss

Ný fótaaðgerðastofa opnuð á Selfossi

Vinsælast

Ný fótaaðgerðastofa var opnuð á Selfossi í mars sem ber heitið Fótaaðgerðastofa Suðurlands. Hún er til húsa að Eyravegi 37, í gamla TRS húsinu sem margir kannast við. Það eru Dagný Ragnarsdóttir og Ída Bjarklind Magnúsdóttir sem ákváðu að taka höndum saman, innrétta fyrrum lagerrýmið sem fótaaðgerðastofu og auka þar með þjónustu fyrir fótaaðgerðir á Suðurlandi. Þær stöllur útskrifuðust báðar frá Keili í janúar eftir þriggja anna nám í faggreinafögum og verknámi í fótaaðgerðafræði að undangengnum 109 einingum í kjarna- og heilbrigðisgreinum.

Dagný er uppalin á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum en fluttist á Selfoss þegar hún fór í nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hún útskrifaðst sem iðjuþjálfi frá Háskólanum á Akureyri árið 2015 en hefur nánast alla tíð unnið hjá Lyfju fyrir utan tæp þrjú á sem hún vann sem málastjóri hjá Geðheilsuteymi HSU þar til að hún hóf nám í Keili. Ída er uppalin á Selfossi en er tiltölulega nýflutt þangað aftur eftir að hafa búið í Reykjavík síðustu ár þar sem hún stundaði nám og spilaði handbolta. Hún fór að læra fótaaðgerðafræði haustið 2023 og útskrifaðist sem fótaaðgerðafræðingur frá Keili í janúar sl. Ída hóf störf sem fótaaðgerðafræðingur eftir útskrift á Landspítalanum á göngudeild innkirtla og vinnur þar einn dag í viku samhliða núverandi starfi á Fótaaðgerðastofu Suðurlands.

Starf fótaaðgerðafræðinga felur í sér meðal annars að meta ástand fóta og meðhöndla fótamein sem ekki krefjast læknisfræðilegrar meðhöndlunar ásamt því að halda sjúkraskrá samkvæmt lögum starfseminnar.

Ída og Dagný fyrir utan fótaaðgerðastofuna.
Ljósmynd: Aðsend.

Marmiðið er eins og áður sagði að auka þjónustu í nærsamfélaginu og allra Sunnlendinga sem eiga leið um Selfoss. Fótaaðgerðir eru mikilvægur hlekkur í að viðhalda góðri fótheilsu og er ætlað öllum aldurshópum, eldra fólki sem á orðið erfiðara með að sinna eigin fóthirðu og þeim sem eiga við afleiðingar og einkenni í fótum vegna sykursýki eða æðavandamála. Einnig vilja Dagný og Ída sinna yngra fólki sem er að kljást við fóta- og naglavandamál vegna íþróttameiðsla eða álags.

„Fótaaðgerðir eru mjög mikilvægar þar sem þær leysa oft og tíðum langvarandi og hvimleit vandamál og markmiðið er alltaf að veita betri líðan með því að laga eða fjarlægja orsakavaldinn og í leiðinni veita fræðslu og ráðgjöf,“ segja Dagný og Ída.

Það sem fótaaðgerð felur í sér er að viðskiptavinur fer fyrst í fótabað og síðan fer það eftir eðli og umfangi vandamáls hvað unnið er sérstaklega með. Fótaaðgerðafræðingar klippa og þynna neglur ef þær eru þykkar, skafa sigg og meðhöndla vörtur ásamt því að hreinsa upp líkþorn, meðhöndla inngrónar neglur og setja spangir ef talin er þörf á því. Einnig eru gefnar ráðleggingar varðandi skófatnað og leiðbeint ef grunur er um fót- eða naglasvepp. Að endingu er viðeigandi krem eða froða borin á fætur með góðum strokum.

Almennur opnunartími stofunnar er milli 9 og 16 og það má droppa inn og athuga með lausa tíma, annars er líka hægt að hringja í síma 883-9800. Stofan er á noona.is og það er auðvelt og þægilegt að panta tíma þar. „Það sem við ætlum að bjóða upp á aukalega er að vera með tíma utan hefðbundins vinnutíma þ.e.a.s. eftir kl. 16:00 einhverja daga og eins að bjóða fólki að koma valda laugardaga,“ segja þær Dagný og Ída.

„Tökum vel á móti öllum og hlökkum til að þjónusta sem flesta og veita betri líðan,“ segja þær að lokum.

Nýjar fréttir