3.9 C
Selfoss

Leikfélag Eyrarbakka setur upp leiksýningu á Rauða húsinu

Vinsælast

Leikfélag Eyrarbakka æfir um þessar mundir leikritið Stöndum saman eftir Huldu Ólafsdóttur sem jafnframt leikstýrir verkinu. Sýningin fjallar um ungt par sem glímir við allt það sem lífið hefur upp á að bjóða – barneignir, nám, vinnu, foreldra og tengdaforeldra, íbúðarkaup, áskoranir og hvernig best sé að púsla öllu saman. „Hér mætast húmor, gleði og söngur við drama, sorg og erfiðleika – allt saman í einni magnaðri sýningu. Hver einasti áhorfandi mun finna eitthvað sem hann tengir við, hvort sem það er persóna sem minnir á einhvern úr eigin lífi eða atvik sem hann þekkir af eigin raun,“ segir Álfrún Auður Bjarnadóttir meðlimur félagsins í samtali við Dfs.is.

Áskorun að finna rétt húsnæði

Aðspurð að því af hverju þetta verk hafði orðið fyrir valinu segir Álfrún að stjórn félagsins hafi lengi verið að leita að réttu húsnæði fyrir sýningu vetrarins sem reyndist mikil áskorun þegar Hulda Ólafsdóttir, leikstjóri, höfundur og stofnandi leikfélagsins, hafði samband við þau og kynnti verkið.

„Okkur leist strax vel á það, ekki bara vegna þess að það er stórskemmtilegt og auðvelt að tengja við það, heldur líka vegna þess að það er hannað til að geta verið sýnt hvar sem er. Þegar verkið var frumsýnt fyrir rúmum 30 árum í Keflavík fór það fram á veitingastaðnum Glóðinni. Það gaf okkur innblástur til að kanna samstarf við veitingastaðinn Rauða húsið – sem gekk fullkomlega upp,“ segir Álfrún.

Hulda Ólafsdóttir leikstjóri og höfundur verksins.
Ljósmynd: Aðsend.

Rúmlega 30 lög í sýningunni

Sýningin inniheldur rúmlega 30 lög með nýjum textum, auk eins frumsamins lags sem heyrist í lokin. Hulda Ólafsdóttir samdi textana við öll lögin, en píanóleikari félagsins, Jón Aron Lundberg, samdi frumsamda lagið út frá textunum hennar.

Píanóleikarinn Jón Aron Lundberg.
Ljósmynd: Aðsend.

Alls eru 17 leikarar í sýningunni auk píanóleikarans. Einn aukaleikaranna sér um mestu vinnuna á bak við tjöldin meðan á sýningum stendur og er einnig sminka sem sér um að farða leikara. „Við njótum einnig aðstoðar frá ýmsu góðu fólki sem hefur lagt sitt af mörkum við leikmunagerð, myndatökur og margt fleira,“ tekur Álfrún fram.

Það gekk almennt mjög vel að fá fólk til að taka þátt í sýningunni, það hafi þó verið smá basl að finna einn karlkynsleikara og að fá fleiri í sönghópinn. „En allt reddaðist á endanum – ekki aðeins fundum við leikarann sem vantaði heldur fjölgaði í sönghópnum umfram væntingar, sem var hreint út sagt frábært!“ segir Álfrún stolt.

Partur af sönghópnum. Guðrún Ósk Guðjónsdóttir, Auður Elín Hjálmarssóttir og Gerður Eðvarðsdóttir.
Ljósmynd: Aðsend.

Með samheldni og þrautseigju er allt hægt

Æfingatímabilið hefur gengið vel að sögn Álfrúnar þrátt fyrir margar áskoranir.

„Flestir í hópnum eru í fullri vinnu, með fjölskyldu, í námi eða með önnur verkefni, þannig að það hefur verið krefjandi að samræma allt. Það er samt skemmtilegt að hugsa til þess að einmitt þetta er ein af undirstöðum sýningarinnar – hvernig við púslum saman skyldum, draumum og lífsins kröfum. En eitt er víst: með samheldni og þrautseigju er allt hægt, og okkar magnaði hópur hefur sannað það á æfingunum!“

Valgeir Backman og Álfrún Auður Bjarnadóttir sem unga parið Eddi og Alda.
Ljósmynd: Aðsend.

Leikritið er sýnt í veislusal veitingastaðarins Rauða hússins, á annarri hæð, sem gefur sýningunni alveg sérstaka stemningu að sögn Álfrúnar. Hún segir spennuna fyrir frumsýningunni vera í hámarki og leikhópurinn sé fullur tilhlökkunar og tilbúinn að gefa allt í sölurnar.

„Auðvitað fylgir alltaf smá stress með – en það er af hinu góða. Við hlökkum ótrúlega mikið til að deila þessari frábæru sýningu með áhorfendum!“ segir Álfrún að lokum.

Erlingur Bjarnason og Margrét Magnúsdóttir sem foreldrar Edda, Svenni og Nína.
Ljósmynd: Aðsend.

Nýjar fréttir