Ölfusingurinn Davíð Clausen Pétursson er einn af sex mönnum sem halda út til Parísar og tekur þátt í heimsmeistaramótinu í kjötiðn sem haldið er 31. mars. Í samtali við Dfs.is segir Davíð þetta vera Ólympíuleika kjötiðnaðarins og verði eingöngu færustu fagmenn heimsins að keppa á stóra sviðinu. 14 lönd keppa í ár og verða margir margverðlaunaðir kjötiðnaðarmenn að keppa fyrir sitt land. Búist er við um 20-25 manns til Parísar frá Íslandi. Ásamt landsliðinu mæta þrír úr stjórn liðsins, makar og stuðningsmenn.
Fá 3,5 klukkustund til að fullvinna kjöt í kjötborð
Mótið fer þannig fram að á 3,5 klukkustund eiga liðin að úrbeina og fullvinna í kjötborð: hálft naut, hálft svín, heilt lamb og fimm kjúklinga. „Dæmt er eftir fegurð borðs, nýtingu á kjöti, nýsköpun, fagmennsku og „value added“. Er það til dæmis að framreiða steikur úr bitum sem eru mikið notaðir í hakk, fylltar stórsteikur og pylsur,“ segir Davíð. Liðin eiga líka að gera fjórar týpur af pylsum: eina úr svíni, eina úr nauti og eina sælkerapylsu. „Einnig gerum við eina lamba þar sem við erum jú þekkt þjóð fyrir afburða gott lambakjöt,“ bætir Davíð við. Að lokum þurfa þeir að velja einn bita úr hverju próteini sem þeir bera sérstaklega fram fyrir dómara og eru dæmdir út frá útliti á kjötborði og bragði eftir eldun.
Undirbúningur fyrir mótið hefur gengið gríðarlega vel að sögn Davíðs. „Við erum búnir að vera að æfa stíft í heilt ár núna og er allt búið að smella fyrir mótið, nú er bara að fara út og láta ljós sitt skína!“

Ljósmynd: Aðsend.
Byrjaði á beint frá býli sölu á Ölnauti
Aðspurður að því hvernig Davíð hafi leiðst út í kjötiðn segist hann hafa byrjað að fikta við beint frá býli sölu með Ölnauti frá Hvammi í Ölfusi, þar sem hann er uppalinn, þegar hann kláraði búfræði árið 2020.
„Ég vann það sem lokaverkefni þá og vatt það svo skemmtilega upp á sig að ég sá að það væri eina vitið að koma af stað vinnslu heima til að verka gripina sjálfur,“ segir Davíð.
Hóf hann þá störf hjá SS á Hvolsvelli og var þar sem nemi í eitt og hálft ár. Hann flutti svo í bæinn þegar hann kynntist konunni sinni. „Þá fer ég að vinna hjá Ferskum kjötvörum til að geta einblínt á nautaúrbeiningar og var þar í rétt tæp tvö og hálft ár. Ég útskrifast sem kjötiðnaðarmaður á meðan ég vann þar og skráði mig í landsliðið þegar ég var enn nemi. Svo er ég hér í dag, ári seinna á leiðinni út til Frakklands að keppa!“
Grillmeistari Íslands tvö ár í röð
Davíð hefur áður keppt á nokkrum mótum tengdum matvælum heima á Íslandi. Hann er ríkjandigrillmeistari Íslands, en hann hefur unnið þann titil tvö ár í röð, fyrst 2023 og svo 2024. Einnig vann hann Arctic Butcher 2024 og lenti í 2. sæti í nemakeppni í MK 2024.
„Þannig að það eru nokkrar keppnir komnar og myndi ég keppa meira ef þær stæðu til boða hérlendis,“ segir Davíð.

Ljósmynd: Aðsend.
Keppir ekki nema til þess að vinna
Þegar Davíð er spurður um markmið á mótinu stendur ekki á svörum. „Ég keppi ekki nema til þess að vinna.“
Hann segir markmiðið þó ekki bara vera sigur heldur líka að kynna fagið.
„Okkur vantar fleiri unga og efnilega kjötiðnaðarmenn því það er endalaus þörf fyrir nýsköpun og fagmennsku þegar kemur að matvælum hérlendis. Ekki skemmir fyrir að kjötiðnaðarkennararnir þessa dagana eru hrikalega fróðir og skemmtilegir,“ segir Davíð.
Að lokum vill Davíð hamra á því að ef einhvern langar að prufa kjötiðnaðarnám og spreyta sig í faginu þá eigi ekki að hika við að heyra í næstu kjötvinnslu eða kjötbúð og prufa að vinna við þetta. „Þetta er eitt af skemmtilegri störfum sem þú kemst í og fullt af starfsmöguleikum sem fylgja í kjölfarið!“