2 C
Selfoss

Öllum mætt þar sem þau eru í fullorðinsfimleikum

Vinsælast

Fimleikadeild Selfoss býður nú upp á nýtt námskeið í fullorðinsfimleikum, þar sem lögð er áhersla á fjölbreytta og skemmtilega hreyfingu í góðum félagsskap. Námskeiðið byrjar 2. apríl og stendur yfir í átta vikur.

„Okkur finnst mikilvægt að reyna að halda úti fjölbreyttu starfi og við vitum að það er fólk á fullorðinsaldri sem vill skemmtilega, fjölbreytta og krefjandi hreyfingu í góðum félagsskap – sem er allt eitthvað sem fullorðinsfimleikar uppfylla,“ segir Bergþóra Kristín, framkvæmdastjóri Fimleikadeildar Selfoss.

Deildin hefur áður haldið sambærileg námskeið og hafa þau mælst vel fyrir. Þangað sækja bæði einstaklingar sem hafa æft fimleika áður og vilja finna gleðina í hreyfingunni á ný, en einnig þeir sem aldrei hafa prófað fimleika og eru til í nýjar áskoranir.Það hefur hingað til myndast mjög skemmtilegur og fjölbreyttur hópur í hvert sinn sem við höldum námskeið,“ segir Bergþóra.

Það er Sindri Steinn Diego sem leiðir námskeiðið, en hann hefur bæði mikla reynslu sem fimleikamaður og þjálfari fullorðinsfimleika.

Á námskeiðið mega öll mæta, óháð fyrri reynslu. Farið verður í fimleikaupphitun þar sem reynir á samhæfingu, þrek og þol ásamt stöðvavinnu á mismunandi stöðvum í fimleikasalnum. Þjálfarinn aðlagar æfingarnar að getu hvers og eins og leggur áherslu á að skapa jákvæða og afslappaða stemningu.

„Öllum er mætt þar sem þau eru, hvort sem þau hafa fyrri reynslu eða ekki, það er þá hægt að byrja á því að læra að hoppa á áhöldunum áður en það er farið í einhverjar meira krefjandi æfingar,“ segir Bergþóra.

Bergþóra segir að á námskeiðinu megi búast við skemmtilegri hreyfingu, góðum félagsskap og nýjum áskorunum.

Skráning á námskeiðið fer fram á Abler, í gegnum vefslóðina www.abler.io/shop/umfs/fimleikar.

Nýjar fréttir