Hvergerðingar hafa kvartað undan vondri lykt og bragði sem kemur frá neysluvatni bæjarins. Er talað um að lyktin minni á gas eða olíu. Umræður hafa skapast um málefnið á íbúasíðu bæjarins þar sem sumir segjast hafa fundið lyktina í alla vega viku og að aðrir hafi ekki drukkið vatn af viti í marga daga vegna þessa. Margir eru smeykir við að drekka vatnið og vilja fá svör um það hvort skaðlegt sé að neyta þess.
Hveragerðisbær hefur brugðist við og setur málið algjörlega í forgang að sögn Péturs G. Markan, bæjarstjóra Hveragerðisbæjar.
„Viðbragðið er tvíþætt, annars vegar erum við láta athuga heilnæmi vatnsins og hins vegar erum við að rannsaka mögulega orsök með því að yfirfara alla veituna og vatnstankinn, rannsaka borholur, athuga með framkvæmdir í bænum og fleira. Allt athugað.
Heilbrigðiseftirlitið hefur tekið fjölmörg sýni og bærinn óskaði eftir að greiningin fengi algjöran forgang hjá eftirlitinu. Fyrst og fremst er að fá þann úrskurð og bregðast við um leið ef þurfa þykir,“ segir Pétur í Facebook-færslu á sinni persónulegu síðu.
Hann vonar að niðurstöður skili sér í dag og segir að Heilbrigðiseftirlitið geri sitt allra besta í því máli.
Starfsmenn hafa einnig verið í samstarfi og samtali við helstu fagaðila og fagþekkingu eins og Veitur, Ísor og fleiri til að finna orsökina. Sú vinna er í fullum gangi og heldur áfram þar til svör gefast. Þangað til niðurstaða er komin er málið í algjörum forgangi hjá bænum.