2.3 C
Selfoss

Selfyssingar bikarmeistarar í hópfimleikum

Vinsælast

Helgina 21. – 23. mars fór fram bikarmót í hópfimleikum í Egilshöllinni og var umgjörðin öll sú glæsilegasta.

Selfoss átti sex lið í keppni og voru fyrstu tvö liðin að keppa strax á föstudeginum. Selfoss 2. flokkur stúlkna og Selfoss 2. flokkur mix kepptu þar í mjög spennandi keppni. Í 2. flokki stúlkna voru átta lið mætt til keppni og fjögur lið í flokki blandaðra liða. 
Liðin áttu góðan dag og voru að gera ný stökk, auk þess sem þau voru búin að gera breytingar á gólfæfingunum sínum. Stúlknaliðið varð í 3. sæti og hækkaði sig mikið á gólfinu frá síðasta móti. Blandaða liðið varð í 2. sæti eftir skemmtilega keppni og tók ýmislegt með sér í reynslubankann eftir þennan hluta.

2. flokkur Fimleikadeildar Selfoss.
Ljósmynd: Aðsend.

3. flokkur kvenna keppti í tveimur liðum, annað liðið í A-deild og hitt í B-deildinni.
Liðin gerðu bæði örugg stökk, fengu meðal annars lendingarbónus frá dómurum og áttu heilt yfirgott mót. 3. flokkur í A-deild lenti í 3. sæti og 3. flokkur í B-deild í 5. sæti samanlagt.

3. flokkur Fimleikadeilar Selfoss.
Ljósmynd: Aðsend.
3. flokkur Fimleikadeildar Selfoss.
Ljósmynd: Aðsend.

Á sunnudeginum kepptu svo 1. flokkur og meistaraflokkur. 1. flokkur var fyrir mótið ríkjandi bikarmeistari og var stefnan að verja þann titil. Stúlkurnar gerðu sér lítið fyrir og gerðu það. Þær unnu með meira en fjórum heilum stigum og sigruðu öll áhöld. Þær áttu stórgott mót og virkilega gaman að fylgjast með þeim. Innilega til hamingju stelpur með verðskuldaðan sigur!“ segir í tilkynningu frá félaginu.

1. flokkur Fimleikadeildar Selfoss.
Ljósmynd: Aðsend.

Í meistaraflokki voru aðeins þrjú lið í kvennaflokki og átti Selfoss eitt þeirra liða.

Liðið hefur verið í mikilli uppbyggingu síðastliðin ár og var mjög gaman að sjá að þær eru ekki að gera neitt minni erfiðleika en liðin á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir lélega aðstöðu hjá okkur í Baulu. Mikil þrautseigja og vinnusemi hefur skilað liðinu á þann flotta stað sem þær eru á í dag og við erum mjög stolt af þessu flotta liði. Liðið gerði nokkur dýr mistök í keppni en þær skiluðu einnig mikið af mjög góðum stökkæfingum og kraftmiklum gólfæfingum. Þær lentu í 3. sæti og eru spenntar fyrir Íslandsmóti eftir tvær og hálfa viku,“ segir einnig í tilkynningunni. 

Stúkan var til fyrirmyndar en Selfoss átti frábæra stuðningsmenn um helgina sem mættu í vínrauðu, með fána og samstillt hvatningarorð – kærar þakkir fyrir okkur þið öll, stuðningurinn er ómetanlegur!“ segir að lokum.

Nýjar fréttir