-0.9 C
Selfoss

Hátt í 30 matarfrumkvöðlar sameinast á markaði á Selfossi

Vinsælast

Samtök smáframleiðenda matvæla og aðildarfélag þess, Beint frá býli, halda sinn árlega aðalfund og árshátíð á Hótel Selfossi núna í vikunni. Samhliða þessum viðburðum hefur skapast sú hefð að halda matarmarkað, bjóða upp á námskeið og fara í rútuferð um svæðið til að heimsækja félagsmenn og kynna sér starfsemi þeirra.

Námskeiðið er eingöngu í boði fyrir félagsmenn sem hafa skráð sig og er það um notkun gervigreindar.

„Gervigreindin spilar stöðugt stærra hlutverk í rekstri fyrirtækja og lífi fólks og því fannst okkur mikilvægt að bjóða okkar félagsmönnum upp á grunnnámskeið í notkun hennar. Við leituðum til Sigvalda Einarssonar sem er MBA-nemandi í gervigreind hjá Akademias. Hann tók því vel að setja saman tveggja klukkustunda námskeið fyrir okkur,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda og Beint frá býli, í samtali við Dagskrána.

Matarmarkaðurinn er veglegur og verður þar boðið upp á vörur frá hátt í þrjátíu matarfrumkvöðlum víðs vegar að af landinu og er hann opinn öllum. „Gert er ráð fyrir góðri mætingu á markaðinn, enda úrvalið af kræsingum fjölbreytt og hafa matgæðingar landsins sýnt á undanförnum árum að þeir láta slíka viðburði ekki framhjá sér fara,“ segir Oddný.

„Markaður eins og þessi er afar mikilvægur fyrir matarfrumkvöðla. Þar fá smáframleiðendur tækifæri til að eiga milliliðalaus samskipti og viðskipti við neytendur, fá mikilvæga endurgjöf á vörurnar sínar og byggja upp bein viðskiptasambönd. Gestir sem mæta á matarmarkaði eru jafnan ákveðnir í að birgja sig upp af góðgæti, sem gerir viðburðina að mikilvægri búbót fyrir smáframleiðendur þar sem sala er mikil á stuttum tíma og fer andvirði sölunnar óskipt til framleiðandans,“ segir Oddný einnig.

Matarmarkaðurinn verður haldinn fimmtudaginn 27. mars á Hótel Selfossi frá kl. 16-18:30. Nánari upplýsingar um markaðinn og úrval vara má finna í Facebook-viðburði sem stofnaður hefur verið fyrir markaðinn.

Nýjar fréttir