0.4 C
Selfoss

Þrjú Íslandsmet í öldungaflokkum í frjálsum íþróttum

Vinsælast

Héraðsleikar HSK í frjálsum íþróttum er árviss viðburður í Selfosshöllinni og er fyrir keppendur 10 ára og yngri. Mótið fór fram 15. mars síðastliðinn og voru um 100 keppendur skráðir til leiks frá sex félögum innan HSK. Höllin iðaði af lífi þegar keppt var í 60 m hlaupi, hringhlaupi, langstökki, hástökki, skutlukasti og kúluvarpi og greinilegt er að stundað er öflugt frjálsíþróttastarf víða á sambandssvæðinu.

Hluti af stúlkum 8 ára og yngri fá viðurkenningu.
Ljósmynd: Guðmunda Ólafsdóttir.
Hluti af piltum 8 ára og yngri fá viðurkenningu.
Ljósmynd: Guðmunda Ólafsdóttir.
Piltar 9 ára á Héraðsleikunum fá viðurkenningu.
Ljósmynd: Guðmunda Ólafsdóttir.

Héraðsmót HSK í flokki fullorðinna fór fram síðar sama dag. Þar voru skráðir til leiks 50 keppendur á aldrinum 13-70 ára, enda frjálsar íþróttir fyrir fólk á öllum aldri. Það voru fjögur félög sem sendu keppendur á mótið og fór stigakeppnin þannig að Íþrf. Garpur var í 3. sæti með 23 stig, Umf. Hekla var í 2. sæti með 50 stig og Umf. Selfoss var í 1. sæti með 149,5 stig. Nokkuð var um bætingar enda um síðasta mót innanhússtímabilsins að ræða og margir sem vildu sýna sig og sanna.

Á mótinu voru þrír keppendur sem settu Íslandsmet í öldungaflokkum sem sýnir hversu mikil gróska er í starfi eldri iðkenda um þessar mundir. Páll Pétursson, Umf. Selfoss, setti met í kúluvarpi þegar hann kastaði 7,26 kg kúlunni 7,22 m í flokki 65-69 ára, Árný Heiðarsdóttir, Umf. Selfoss, setti met þegar hún kastaði 4 kg kúlunni 7,62 m og Ágústa Tryggvadóttir, Umf. Selfoss, stökk 2,00 m í stangarstökki en það er Íslandsmet í flokki 40-44 ára. Hrefna Katrínardóttir, Umf. Selfoss, setti svo HSK-met í flokki 30-34 ára þegar hún stökk 1,90 m í stangarstökki. Íslandsmetin voru að sjálfsögðu öll jafnframt HSK-met.

Þetta var síðasta mót innanhússtímabilsins hjá þessum hópi og hefst nú uppbygging fyrir utanhússtímabilið sem hefst með Vormóti HSK 14. maí.

Verðlaunahafar í 60m. Hlaupi karla. F.v. Sindri Freyr Seim Sigurðsson Umf. Heklu, Hjálmar Vilhelm Rúnarsson Umf. Selfoss og Daníel Breki Elvarsson Umf. Selfoss.
Ljósmynd: Guðmunda Ólafsdóttir.
Verðlaunahafar í hástökki kvenna. F.v. Anna Metta Óskarsdóttir Umf. Selfoss, Helga Fjóla Erlendsdóttir Íþrf. Garpi og Stephanie Ósk Ingvarsdóttir Umf. Heklu.
Ljósmynd: Guðmunda Ólafsdóttir.

Nýjar fréttir