Orka náttúrunnar og GTS handsöluðu samkomulag um að viðskiptavinir ON geti nýtt sér nýjar hleðslustöðvar á lóð GTS á Selfossi sem opnaði í haust. Hleðslustöðvarnar hjá GTS eru öflugar og í alfaraleið við bæjarmörkin. Með þessu bætast við tuttugu tengi í hleðslunet Orku náttúrunnar sem við erum sífellt að vinna að því að stækka og þétta.
„Samstarfið við ON hefur gengið mjög vel í alla staði, við höfum unnið vel saman til að gera þetta sem best fyrir notendur og hefur tekist vel. Nýtingin hjá okkur er alltaf að aukast og fólk er að læra inn á þetta, hér er nóg pláss þannig að öll eiga að geta komið og hlaðið þegar þeim hentar og engin bið, hvort sem fólk vill skjóta aðeins inn á bílana sína til að klára för eða koma og fullhlaða þá er nóg pláss og nóg rafmagn. Við vonum svo sannarlega að fólk njóti góðs af þessari framkvæmd og öll eru velkomin með bílana sína í hleðslu á besta stað á Selfossi,“ segir Tyrfingur Guðmundsson, framkvæmdastjóri GTS.
„Við erum afskaplega ánægð með samstarfið við GTS og gott að geta nýtt þá reynslu sem við höfum öðlast til að styðja við orkuskipti í samöngum með ólíkum leiðum. Það er til fyrirmyndar þegar fyrirtæki leggja sig fram til að skipta úr jarðefnaeldsneyti yfir í rafmagn og þá sérstaklega eins og í tilfelli GTS að uppbygging geti nýst almenningi og viðskiptavinum ON”, segir Jóhann Ingi Magnússon, forstöðumaður sölu og þjónustu hjá ON.
Orka náttúrunnar fagnaði tíu ára afmæli sínu á síðasta ári og sömuleiðis er rúmur áratugur frá því að fyrirtækið tók í notkun fyrstu hraðhleðsluna hér á landi fyrir rafbílaeigendur. Síðan hefur uppbygging innviða fyrir orkuskiptin staðið yfir og hefur ON leitt þá vegferð frá upphafi. Að undanförnu hefur fyrirtækið verið eftirsóttur samstarfsaðili sveitarfélaga við að setja upp og reka hleðslubúnað við bílastæði sem þau hafa til umráða.
Næsta skref í uppbyggingu innviða hjá ON er að styðja við rafvæðingu í ferðaþjónustu og vöruflutningum. Samstarfið við GTS er því mikilvægt skref í þá átt en í ferðaþjónustunni liggja tækifæri til frekari þróunar, með það að markmiði að styðja við umhverfisvænni samgöngur og sjálfbæra orkuöflun á Íslandi.
