0 C
Selfoss

Lásu yfir 93 þúsund blaðsíður á einum mánuði

Vinsælast

Svakalega lestrarkeppni skólanna var haldin 16. október til 16. nóvember sl. Sex skólar á Suðurlandi tóku þátt í keppninni, sem snerist um það að lesa sem flestar blaðsíður á einum mánuði, og bar Stekkjaskóli á Selfossi sigur úr býtum með rúmlega 93.500 lesnar blaðsíður sem gerir um 3.100 blaðsíður á dag. Af öllum bekkjum las 7. bekkur flestar blaðsíður eða tæplega 24 þúsund.

Blær Guðmundsdóttir og Eva Rún Þorgeirsdóttir barnabókahöfundar standa fyrir keppninni. Þær voru fengnar í verkefnið List fyrir alla sem snýst um að senda listviðburði í skóla úti á landi. Það er breytilegt eftir árum um hvers konar list er að ræða og var áherslan í þetta sinn lögð á skapandi hugsun í sögugerð og lestri.

Verðlaunaafhending fór fram í Stekkjaskóla í gær þar sem Blær Guðmundsdóttir afhenti skólanum viðurkenningu, tímarit og bækur í verðlaun. Ragna Fanney Róbertsdóttir, nemandi í Stekkjaskóla, fékk viðurkenningu fyrir sérstaklega góðan árangur en hún las sjálf yfir 3.300 blaðsíður á einum mánuði.

Blær Guðmundsdóttir afhenti verðlaunin. Lilja Írena H. Guðnadóttir, skólasafnskennari Stekkjaskóla, tók við þeim.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Nemendur miðstigs voru viðstaddir verðlaunaafhendinguna.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Nýjar fréttir