4.5 C
Selfoss

Þrjár konur reka eina sjálfstætt starfandi apótekið á Suðurlandi

Vinsælast

Apótek Suðurlands er sjálfstætt starfandi apótek á Selfossi. Það var stofnað árið 2019 af hjónunum Guðmundu Þorsteinsdóttur og Hauki Guðna Kristjánssyni, Hörpu Viðarsdóttur og hjónunum Eysteini Arasyni og Maríu Ásmundsdóttur. Á síðasta ári urðu eigendaskipti á apótekinu þegar Ásrún Karlsdóttir og Bergrún Linda Björgvinsdóttir tóku við af Eysteini og Maríu. Í dag eiga þær Guðmunda, Ásrún og Bergrún jafnan hlut í fyrirtækinu.

Ásrún og Bergrún höfðu báðar starfað í apótekinu um nokkurt skeið þegar tækifærið bauðst að verða hluthafar í því og var það aldrei spurning að þeirra sögn. „Við vinnum náið saman alla daga og erum gott teymi og höfum mikla trú á fyrirtækinu,“ segja þær í samtali við Dagskrána. Guðmunda og Bergrún eru báðar Rangæingar og hafa þekkst frá því Bergrún var kornabarn og Ásrún, sem er fædd og uppalin í Vík, fellur vel inn í þríeykið.

Þær segjast ekki hafa gert miklar breytingar þegar þær tóku við enda virkilega vel staðið að rekstrinum áður en þær tóku við að þeirra sögn. „En við erum auðvitað smám saman að setja okkar mark á apótekið okkar.“

Góð reynsla og menntun innan apóteksins

Stelpurnar hafa allar reynslu og menntun í geiranum. Guðmunda var í lyfjatæknanámi og starfaði í Reykjavíkurapóteki 1986 til 1989 og starfaði í útibúi Apótekarans á Hvolsvelli áður en hún stofnaði Apótek Suðurlands.

Ásrún er lyfjafræðingur að mennt og hóf apóteksferilinn sinn fyrir um 15 árum sem sumarstarfsmaður með náminu í Lyfju á Selfossi. Hún býr einnig að dýrmætri reynslu eftir að hafa starfað hjá Akureyrarapóteki og Reykjanesapóteki sem eru einnig sjálfstætt starfandi apótek.

Bergrún er líka lyfjafræðingur. Hún útskrifaðist sumarið 2020 og hóf um leið störf í Apóteki Suðurlands. Eftir smá viðkomu hjá Apótekaranum og í SA-lyfjaskömmtun kom Bergrún aftur í Apótek Suðurlands sumarið 2021 og hefur starfað þar síðan.

Áhersla á gott vöruverð

Aðspurðar að því hvernig sé að reka sjálfstætt starfandi apótek með alla risana í kringum sig segjast stelpurnar vera keppnismanneskjur og þyki það fyrst og fremst skemmtileg áskorun.

„Við leggjum ákaflega mikið upp úr því að geta boðið gott vöruverð og það getur stundum reynst áskorun að keppa við stóru lyfjaverslunarkeðjurnar, sem tengjast orðið allar stórum félögum, en við teljum að okkur hafi tekist nokkuð vel til og hvetjum fólk endilega til að gera verðsamanburð.“

Stelpurnar segja að þær hafi fyrst og fremst gaman í vinnunni og þær vilji hafa gleði ríkjandi á vinnustaðnum.

„Við erum allar þannig gerðar að við viljum vanda til verka og höfum mikla ástríðu fyrir því að gera hlutina vel og faglega. Við sjáum ekki betur en að það skili sér, við finnum í það minnsta fyrir mikilli velvild í okkar garð og okkur þykir orðið vænt um viðskiptavini okkar héðan af svæðinu og margir koma langt að til að skipta við okkur og við finnum fyrir því að fólk geri sér grein fyrir því að það er að versla í heimabyggð.“

Heppnar með starfsfólk

Sérstaða Apóteks Suðurlands er að það er lítið og sjálfstætt starfandi. „Eigendurnir eru þrjár sunnlenskar konur og við sjáum sjálfar um dagleg störf í apótekinu. Þannig að við höfum frelsi til að gera hlutina vel, þar sem við leggjum mikið upp úr því að veita góða og persónulega þjónustu.“

„Við erum líka einstaklega heppnar með okkar yndislega starfsfólk. Að okkur meðtöldum eru átta fastir starfsmenn en starfsmannahópurinn telur alls um 16 manns sem koma öll með sína styrkleika inn í apótekið og mynda þessa fallegu heild með okkur,“ taka stelpurnar fram.

Apótekið er með gott starfsfólk.
Ljósmynd: Aðsend. 

Vilja bjóða upp á meiri lyfjafræðilega þjónustu

Apótek Suðurlands mun halda áfram að gera vel, bjóða gott verð og afbragðs þjónustu.

„Okkar markmið er að geta boðið meira upp á lyfjafræðilega þjónustu í nánustu framtíð og við sjáum mikil tækifæri í því. Það er okkur hjartans mál að stuðla að réttri lyfjanotkun og draga úr skaðlegum áhrifum lyfja. Svo stefnir Hrafnhildur Hauksdóttir, dóttir Guðmundu, að því að koma til okkar þegar hún flytur heim að utan og hlökkum við mikið til að fá hana til liðs við okkur. Hún hefur starfað sem lyfjafræðingur í apóteki í Danmörku og fengið þar dýrmæta reynslu þar sem mikið er lagt upp úr lyfjafræðilegri þjónustu við viðskiptavinina,“ segja stelpurnar að lokum.

Nýjar fréttir