Íslendingar notuðu rúmlega sex sinnum meira af algengustu svefnlyfjum en Danir árið 2020. Þetta sama ár fengu 10,4% þjóðarinnar lyfseðil fyrir þessi lyf samkvæmt norrænni samanburðarrannsókn. Notkunin er mest áberandi í hópi eldri borgara og því mikilvægt að vekja athygli á afleiðingunum af þessari notkun.
Átakið Sofðuvel
Undir forystu Önnu Birnu Almarsdóttur, prófessors í samstarfi við LEB og fleiri aðila, var farið í átakið Sofðuvel. Því er ætlað að gera fólk betur meðvitað um skaðsemi svefnlyfja og hvernig hægt verði að öðlast bættan svefn án þeirra. Gefnir hafa verið út tveir bæklingar nokkuð ítarlegir. Í öðrum þeirra er að finna leiðbeiningar til að hjálpa fólki að minnka notkun svefnlyfja og/eða hætta notkun þeirra. Í hinum er frætt um aðferðir til að bæta svefninn án svefnlyfja. Þá má finna upplýsingarnar á síðunni: www.sofduvel.is.
Svefnlyf geta valdið alvarlegum hættum fyrir þá sem taka þau og áhættan eykst með aldrinum.
Að meðaltali sofnar fólk sjö mínútum fyrr með aðstoð algengustu svefnlyfjanna en án þeirra. Þau gagnast yfirleitt einungis í fjórar vikur og ætti helst ekki að nota lengur en í tvær vikur.
Minnis- og önnur vitræn skerðing
Svefnlyf hafa slæm áhrif á minnið. Þau valda erfiðleikum við að læra nýja hluti eða muna eitthvað sem þú átt að vita. Geta þín til að hugsa hratt og taka ákvarðanir minnkar vegna þeirra.
Óstöðugleiki og meiðsli vegna byltu
Svefnlyf eru ein helsta orsök meiðsla eftir byltur hjá eldra fólki. Dæmi um slík eru: mjaðmabrot, brot á úlnlið, hrygg, kinnbeini o.fl., höfuðáverkar en einnig dauðsföll.
Ávanabinding og fráhvarfseinkenni
Algengt er að upplifa svefnerfiðleika þegar hætt er að taka svefnlyf eða slævandi efni. Svefnleysi er oft helsta einkenni fráhvarfa frá svefnlyfjum en fráhvarfseinkennin eru fjöldamörg.
Skelfilegir fylgikvillar
Fólk sem fær flensu (eða aðrar veirusýkingar í öndunarfærum) á meðan það tekur svefnlyf er í mjög mikilli hættu á alvarlegum fylgikvillum, s.s. er fjórum sinnum meiri hætta á lungnabólgu og hætta á dauðsfalli vegna flensu er 20 sinnum hærri!
Skert geta til að stjórna ökutækjum
Ekkert okkar kærir sig um að valda umferðaróhappi eða slysi en það er alvarlegt ef við ökum undir áhrifum svefnlyfja eða annarra slævandi lyfja.
- Fólk sem ekur morguninn eftir að hafa tekið zópíklón (Imovane) hefur jafn skerta aksturshæfni og manneskja með áfengismagn í blóði yfir löglegum mörkum.
- Fólk sem tekur svefnlyf er 4-6 sinnum líklegra að lenda í alvarlegu umferðaslysi.
- 1 af hverjum 9 ökumönnum sem lenda í banaslysum hefur nýlega tekið svefnlyf.
Bætt lífsgæði án svefnlyfja
Við sem unnum að skipulagningu átaksins á vegum LEB hvetjum fólk eindregið til að verða sér úti um bæklingana frá Sofðuvel og lesa þá vandlega ef viðkomandi er að taka inn svefnlyf. Þar og á vefsíðu átaksins (www.sofduvel.is) er að finna ítarlegar leiðbeiningar þannig að hver og einn geti fundið sína leið.
Drífa Sigfúsdóttir,
varaformaður LEB.