Dagmar Øder Einarsdóttir hefur verið að feta sín fyrstu fótspor í tónlist undanfarið ár. Hún gaf út sitt fyrsta frumsamda lag, Síðasta augnablikið, sem fjallar um seinustu stundina sem hún átti með föður sínum, í febrúar 2024. Eftir það hugsaði hún með sér að hún vildi leyfa þessari hlið af sér blómstra.
Samdi texta og ljóð til að halda í erfiðar minningar
Þrátt fyrir að Dagmar hafi ekki byrjað að syngja og semja tónlist af alvöru fyrr en í fyrra segist hún hafa samið ljóð og sungið ein með sjálfri sér í frítíma sínum þegar hún var ung stelpa. Hún var að hennar sögn feiminn krakki og hafði tónlistarhliðina fyrir sjálfa sig en lét sig oft dreyma um að verða lagahöfundur og söngkona.
„Ástæðan fyrir því að ég byrjaði að semja lög var vegna þess að ég hafði alltaf viljað gera það, en aldrei haft tímann í það. Ég var mikið í íþróttum sem barn og ég kunni ekki á nein hljóðfæri þó svo að ég hefði lengi viljað læra á gítar o.s.frv. Ég í raun þurfti að velja og hafna. Ég setti þar af leiðandi þennan draum til hliðar en var þó alltaf að semja texta og ljóð mér sem hjálpartæki og einnig til þess að halda í erfiðar minningar sem ég vildi ekki gleyma. Til dæmis með föðurmissinn. Þegar ég síðan fæddi son minn og hafði mikinn tíma í orlofinu mínu og lítinn pening til þess að eyða í jólagjafir handa fjölskyldunni minni þá ákvað ég að búa til lag út frá minningu sem ég átti með vinum og fjölskyldu og gefa þeim það í jólagjöf.“

Heldur minningu pabba síns á lofti með tónlist
Dagmar missti föður sinn, Einar Øder, úr krabbameini árið 2015. Hún var aðeins 18 ára gömul þegar hann lést og segir hún það hafa verið mjög erfitt. „Sorgin hverfur aldrei en maður verður alltaf að vera að vinna í sjálfum sér til þess að leyfa sorginni ekki að taka yfir líf sitt. Maður verður að læra að lifa með sorginni,“ segir Dagmar í samtali við Dagskrána.
Hún segir það mjög mikilvægt að halda minningu hans á lofti. „Þó svo að einstaklingurinn sé farinn þá þarf það ekki að þýða að minningin um hann þurfi líka að fara. Fólk sem er farið á að fá að halda áfram að lifa þrátt fyrir að við sjáum það ekki eða heyrum.“
Tónlistin er helsta hjálpartæki Dagmarar til að vinna úr áföllum og því sem gerist í lífi hennar. „Án tónlistarinnar væri ég ekki á þeim stað sem ég er í dag.“

Mynd: Aðsend.
Kenndi sjálfri sér að syngja
Dagmar segir að það hafi alltaf búið í sér að semja og syngja tónlist frá því hún fæddist.
„Ég elskaði að dansa, syngja og hlusta á tónlist og lét mig dreyma um að vera á sviði og syngja mín eigin lög fyrir aðra. Ég söng oft í leyni inni í herbergi eða í sturtu og kenndi í raun sjálfri mér að syngja. Ég hafði enga hugmynd að ég væri sæmileg að syngja því það heyrði mig enginn syngja af alvöru fyrr en ég gaf út lagið mitt Síðasta augnablikið. Þessi draumur um að verða tónlistarkona var mjög falinn hjá mér. Ég lét mig lengi dreyma frá því að ég var lítil stúlka, horfði á aðra listamenn í sjónvarpinu og á netinu og ímyndaði mér að ég væri í þeirra sporum sjálf en hafði ekki nógu mikið sjálfstraust í að segja fólki frá því eða gera neitt í því.“
Ætlar að vera meðal þeirra fremstu
Lögin hennar Dagmarar fjalla helst um áföll og það helsta sem hefur gerst eða er að gerast í lífi hennar. „Lögin mín eru í raun það sem finna má í dagbókinni minni.“ Hún hefur einungis gefið út eitt lag en segist vera með þrjú lög tilbúin sem hún stefnir á að gefa út á þessu ári.
Dagmar segist enn vera að finna sjálfið sitt í tónlistinni en að hún semji mikið af kántrý/popp/folk tónlist. Þegar hún semur er misjafnt hvort laglínan eða textinn komi til hennar fyrst. „Þegar ég sem þá kemur þetta allt saman á sama tíma í kollinum á mér. Þetta er allt í kollinum á mér,“ segir Dagmar og hlær.
Dagmar ætlar að halda áfram að semja tónlist og syngja. „Þið fáið svo sannarlega að sjá meira af mér og minni tónlist. Ég hætti aldrei að semja. Ég lifi fyrir tónlistina.“ Hún segist hlakka til að leyfa fólki að heyra meira og sjá meira af henni og hún sér sig fyrir sér meðal þeirra fremstu í tónlist í framtíðinni.
Hægt er að finna tónlist Dagmarar á Spotify undir nafninu Dagmar Öder og lagið hennar Síðasta augnablikið er á Youtube.