Ungt fólk sem er ekki í námi, vinnu eða í þjálfun er hópur sem er skilgreindur sem NEET hópurinn (Not in Education, Employment, or Training). NEET-hópurinn nær yfir ólíkan hóp ungmenna á aldrinum 15 – 29 ára sem standa frammi fyrir ýmsum áskorunum í lífi sínu. Þessi hópur ungmenna eiga í hættu að lifa við verri heilsu og líðan bæði til skemmri og lengri tíma. Einnig hefur það neikvæð áhrif á velferð og getur leitt til félagslegrar einangrunar og efnahagslegra erfiðleika. Orsakirnar eru margvíslegar, svo sem fötlun, andleg heilsa og skortur á stuðningi.
Við sem samfélag þurfum að vera meðvituð um þennan hóp og vera tilbúin að grípa hann og veita honum viðeigandi þjónustu og stuðning. Það er margt til boða í sveitarfélaginu okkar en betur má ef duga skal.
Í Sveitarfélaginu Árborg var komið á fót verkefni sem heitir Elja virkniráðgjöf. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu í upphafi árs 2024 og verður framkvæmt á þremur og hálfu ári eða fram til júní 2027. Markmiðið er að í lok verkefnatímabilsins verði til afurð fyrir sveitarfélög og þjónustusvæði þar sem hægt er að aðlaga verkefnið að þörfum hvers og eins.
Áhrif og markmið Elju virkniráðgjafar
Elja virkniráðgjöf er þjónusta sem byggir á hugmyndafræði „Outreach Youth Work“ frá Finnlandi og velferðarþjónustu Sveitarfélagsins Árborgar. Markmið Elju er að auka stuðning við ungmenni á aldrinum 16-29 ára sem hafa dottið út úr virkni, hjálpa þeim aftur af stað út í lífið og að byggja brýr milli þeirra og annarra úrræða í samfélaginu.
Verkefnið er einstaklingsmiðað og sveigjanlegt, þar sem unnið er með hverju ungmenni á sínum forsendum. Ráðgjöfin hefur það að markmiði að veita stuðning við að ná fram velferð og félagslegri þátttöku, hvort sem það snýr að skóla, atvinnu eða athöfnum daglegs lífs eins og grunnþörfum.
Elja virkniráðgjöf gengur út frá því að byggja upp traust og virðingaríkt samband við ungmennin, þar sem virkni þeirra og framtíðarsýn er í forgrunni. Ráðgjafinn veitir stuðning í að móta markmið og skuldbinda sig til að ná þeim, með áherslu á að styrkja þátttöku þeirra í persónulegu lífi og samfélagi. Verkefnið er sérstaklega gagnlegt fyrir þau ungmenni sem hafa takmarkaða aðstoð eða bakland.
Samfélagsleg áhrif
Til að við getum mætt þessum hópi sem best þurfum við að vinna saman að sameiginlegu markmiði sem er að auka vellíðan og auka virkni þessara ungmenna. Þetta næst ekki nema við tölum saman, fellum niður veggi og byggjum brýr á milli úrræða og þjónustuaðila. Helstu styrkleikar verkefnisins er gott aðgengi ungs fólks að ráðgjöfum, auk þess er það sveigjanlegt og einstaklingsmiðað en býður upp á margvíslegar nálganir, þar sem bæði er unnið með einstaklingum ásamt því að hægt er að setja upp hópastarf með litlum fyrirvara sem er stýrt eftir þörfum hverju sinni.
Samfélagsleg áhrif NEET-hópsins eru víðtæk og fela í sér bæði efnahagslegar, félagslegar og heilsufarslegar áskoranir. Það er mikilvægt fyrir samfélagið að takast á við þessa áskorun með því að bjóða upp á stuðning fyrir þá sem eru í þessum hópi.
Til að styrkja og efla virkni ungmenna í Árborg, hvetjum við fyrirtæki og stofnanir til að taka höndum saman við Elju virkniráðgjöf og styðja við ungmenni í samfélaginu. Með því að vinna saman getur samfélagið byggt upp stærra og sterkara stuðningsnet fyrir ungmennin, sem eykur tækifæri þeirra til að taka þátt í samfélaginu á árangursríkan og uppbyggilegan hátt. Við hvetjum alla hagsmunaaðila til að koma að borðinu og styðja við verkefnið.
Þeir sem vilja kynna sér Elju virkniráðgjöf er bent á að hafa samband við starfsfólk Elju í gegnum tölvupóstfangið elja@arborg.is eða á Instagram ELJA virkniráðgjöf.
Elja virkniráðgjöf