Selfoss hefur samið við sænska varnarmanninn Alexander Berntsson en hann kemur til liðsins frá færeyska félaginu KÍ Klaksvík.
Alexander er miðvörður sem á að baki fjölda leikja í efstu og næstefstu deild í Svíþjóð, flesta leiki fyrir Halmstad og síðar Jönköpings. Hann gekk síðan til liðs við KÍ Klaksvík í Færeyjum fyrir síðasta tímabil og lék 20 leiki fyrir félagið, þar af nokkra í forkeppni Meistaradeildar Evrópu og síðar í Evrópudeildinni og Sambandsdeildinni.
Alexander mætti til landsins 16. mars og mætti á sína fyrstu æfingu hjá Selfossi daginn eftir.
„Ég er ánægður með að vera kominn á Ísland og búinn að semja við Selfoss, hingað hef ég ekki komið áður og ég hlakka til að byrja,” segir Alexander.