Hjónin Sush og Monish Mansharamani eru að opna nýjan indverskan veitingastað á Selfossi sem ber heitið Arekie. Þau reka nú þegar matarvagna með sama nafni í Bandaríkjunum en eru nú flutt á Selfoss eftir að hafa heillast af bænum. Arekie verður í gamla Sigtúni, við hlið ráðhússins.
Arekie mun bjóða upp á fjölbreyttan matseðil með áherslu á indverska matargerð í bland við mat frá öðrum löndum. Monish er frá Indlandi og Sush upprunalega frá Spáni og er markmið þeirra að sameina þjóðerni sín í matnum. „Við höfum ferðast mikið og viljum við líka bjóða upp á mat frá löndum sem við höfum komið til,“ segir Sush í samtali við Dagskrána. Á matseðli er meðal annars areba, sem er eins konar pítubrauð frá Suður-Ameríku. Inn í brauðið er svo sett einhvers konar indversk fylling, eins og smjörkjúklingur (butter chicken) og fleira meðlæti. Einnig verður boðið upp á Tikka masala, tapas-rétti og grænmetisrétti. Þau eru einnig að bjóða upp á lamb og fisk í fyrsta sinn til að blanda íslenskri matargerð við indverska. Að auki eru kokteilar, bjór og vín til sölu.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Sush og Monish stofnuðu Arekie árið 2019 í Flórída í Bandaríkjunum. Þaðan fluttu þau starfsemina til Oregon. Seinna opnuðu þau svo annan stað og reka nú tvo staði í Bandaríkjunum. Ástæðan fyrir því að þau komu með veitingastaðinn til Íslands var sú að þau ferðuðust til landsins árið 2019 og heilluðust af því. Það var um sama leyti og þau opnuðu fyrsta staðinn sinn í Bandaríkjunum og sögðu þau að Ísland væri draumastaðsetningin þeirra fyrir veitingastaðinn.
Upprunalega hugmyndin var að opna Arekie í Reykjavík. „Reykjavík er staðurinn sem kemur upp í hugann þegar maður hugsar um Ísland. Svo við prófuðum markaðinn þar en það eru nú þegar nokkrir indverskir veitingastaðir þar og margir aðrir staðir. Við vorum að keyra framhjá Selfossi einn daginn og sáum hvað bærinn var fallegur. Þá fengum við upplýsingar um að það væri verið að byggja bæinn upp og tækifæri fyrir nýja staði. Þá sáum við meiri möguleika hér en í Reykjavík,“ segir Monish.
Monish segir meginmarkmið þeirra Sush vera að þjónusta samfélagið. „Við viljum vera partur af því og fá heimamenn til okkar. Ef fólk vill borða indverskan mat með fjölskyldunni og eiga góða stund ætti það að koma til okkar. Við einblínum ekki á ferðamenn sem koma og fara, heldur samfélagið fyrst og fremst,“ segir Monish.
Monish og Sush plana að opna Arekie 1. apríl ef allt gengur eftir. Þau segjast vera mjög spennt að opna dyrnar fyrir fólki þar sem ferlið sé búið að vera langt. Þau fluttu á Selfoss í október og hafa unnið hörðum höndum síðan að koma öllu heim og saman. Markmið þeirra er að fólk komi og dáist ekki bara að matnum heldur líka að staðnum sjálfum.