Öldungaráð í Hveragerði mun standa fyrir íbúaþingi um málefni íbúa 60 ára og eldri á Hótel Örk laugardaginn 22. mars kl. 11:00 – 13:00.
Á þinginu verður boðið upp á súpu og brauð og eru gestir beðnir að skrá þátttöku sína á heimasíðu Hveragerðis.
Á dagskrá þingsins eru stutt erindi um öldungaráð og velferðarþjónustu, kynning á verkefninu Gott að eldast og vitundarvakning um heilbrigða öldrun.
Á þinginu gefst þátttakendum einnig tækifæri á að skrá hugmyndir sínar og framtíðarsýn er varðar t.d. búsetu, félagslíf, heilsurækt og aðra þjónustu fyrir þennan stóra aldurshóp í bænum. Öldungaráð mun síðan greina þessi gögn og skila niðurstöðum til bæjarstjórnar.
Vonast er til að sem flestir bæjarbúar á þessu aldurskeiði sjái sér fært að mæta og leggja sitt af mörkum við að móta góða og farsæla framtíð fyrir eldri borgara í Hveragerði.