5.6 C
Selfoss

Lífsstíll er forvörn 

Vinsælast

Að minnsta kosti eitt af hverjum þremur krabbameinstilvikum er talið tengjast lífsvenjum fólks. Þó að ekki sé hægt að tryggja sig gegn því að fá krabbamein er hægt að draga úr líkunum með heilsusamlegum lífsvenjum. 

Hreyfing getur haft verndandi áhrif gegn myndun krabbameins vegna þeirra áhrifa sem áreynsla hefur á margvísleg líffræðileg ferli í líkamanum. Meðal þeirra eru áhrif á blóðsykursgildi, insúlín og tengd hormón, kynhormón, bólgu- og ónæmisviðbrögð en öll hafa þessi ferli áhrif á krabbameinsáhættu. Hreyfing stuðlar einnig að heilsusamlegri líkamsþyngd sem aftur hefur viðbótaráhrif til að draga úr krabbameinsáhættu.

Hollt mataræði felur í sér hæfilegt magn af fjölbreyttum fæðutegundum sem veita alla þá orku og næringarefni sem líkaminn þarf á að halda. Ekki er ráðlagt að nota fæðubótarefni sem forvörn gegn krabbameinum heldur að borða næringarríka fæðu sem inniheldur m.a. selen (sem m.a. er í fiski), lýkópen (sem m.a. er í tómötum) og D-vítamín (sem m.a. er í feitum fiski og lýsi). Sé fólk í krabbameinsmeðferð er mikilvægt að hafa í huga að taka engin bætiefni fyrr en búið er að fá álit læknis þar sem komið hefur í ljós að sum þeirra geta truflað krabbameinsmeðferð.

Neysla áfengis getur valdið a.m.k. sjö mismunandi tegundum krabbameina: í munni, vélinda, koki, barkakýli, lifur, brjóstum og ristli og endaþarmi. Tóbaksreykingar samhliða áfengisdrykkju eru sérlega varhugaverð blanda sem margfaldar krabbameinsáhættu, þ.e. áhættan verður meiri en samanlögð áhættan af reykingum og áfengi. Áfengisdrykkja auðveldar vefjunum í munni og koki að taka upp krabbameinsvaldandi efni úr tóbaksreyknum. Fólk sem bæði reykir og drekkur er í sérstaklega mikilli hættu á að fá krabbamein í munni, koki og vélinda

Í ár er áhersla Mottumars á tenginguna á milli lífsstíls og krabbameina. Krabbameinsfélagið vill í Mottumars vekja athygli á að bæði óheilbrigðar og heilbrigðar lífsvenjur verða til á löngum tíma. Skilaboðin eru einföld. 
Lífsstíll er ekkert til að grínast með, hann er þvert á móti dauðans alvara.

 

Efni fengið af vef Krabbameinsfélags Íslands

Nýjar fréttir