5 C
Selfoss

VR-félagar, nýtið atkvæðisréttinn!

Fyrir tæpum áratug síðan stóð félagsfólk í Verslunarmannafélagi Suðurlands frammi fyrir mikilvægri ákvörðun, það er að segja hvort félagið ætti sameinast öðru félagi og var þá horft til VR eða Bárunnar á Selfossi. Þá þegar höfðu nokkrar sameiningar verslunarmannafélaga gengið í gegn og heppnast ágætlega. Með stærðinni mátti efla þjónustuna og einnig byggja upp öflugri sjúkrasjóð, en víða þrengdi að þeim í kjölfar hrunsins.

Sameiningar sem innibera annars vegar landsbyggðareiningar og hins vegar höfuðborgarsvæðið geta þó verið áhættusamar, enda verða hagsmunir höfuðborgarinnar stundum fyrirferðamiklir. Sameining VMS og VR hefur þó almennt þótt lukkast vel og skipti þar sköpum sú ákvörðun að á Selfossi yrði eftir sem áður starfrækt skrifstofa VR. Það samfélag stéttarfélaga sem hefur myndast við Austurveg 56 er kröftugt og þar geta félögin sótt styrk hvert til annars í því mikilvæga verkefni að standa vörð um hagsmuni og réttindi launafólks á Suðurlandi. Það er víðfeðmt verkefni, í orðsins fyllstu merkingu, en félagssvæði VR á svæðinu nær allt frá Lómagnúpi að Herdísarvík og svo upp í Kerlingarfjöll. Gangi sameining VR og Leiðsagnar eftir verður verksvið VR enn víðtækara á svæðinu, enda ferðaþjónustan gróskumikil allt frá Vestmannaeyjum og upp á hálendi.

Formaður allra VR félaga

Mér er mikið í mun að vera formaður allra VR-félaga og horfi ég þar meðal annars til hins stóra félagssvæðis VR og þeirra ólíku aðstæðna sem fólk býr við í mismunandi landshlutum. Ég hef þegar átt góðan fund með deild VR á Suðurlandi til að setja mig inn í stöðu atvinnumála á svæðinu. Ég legg áherslu á að viðhalda öflugri þjónustu VR á svæðinu, en einnig að formaður láti sig staðbundin mál sem tengjast kjörum félagsfólks varða. Ég stefni á að hafa reglubundna viðveru á Selfossi og að heimsækja vinnustaði VR félaga á Suðurlandi. Enn fremur stendur fyrir dyrum viðamikil skipulagsvinna í VR þar sem fjallað verður um eðli og umfang deilda félagsins, meðal annars hvort deildaskipting eftir landsvæðum eða starfsgreinum sé æskilegri. Mikilvægt er að tryggja að sjónarmið vinnandi fólks á Suðurlandi séu til hliðsjónar við alla umræðu og ákvarðanatöku.

Framundan eru kosningar í VR og óska ég eftir umboði til að leiða félagið áfram, en ég tók við stjórnartaumunum þegar forveri minn tók sæti á Alþingi laust fyrir áramót. VR er stærsta og öflugasta stéttarfélag landsins og er eitt félaga sem kýs sér forystu með beinni persónukosningu. Ég hvet VR-félaga á Suðurlandi til að nýta kosningarétt sinn í félaginu og kjósa bæði formann og stjórnarfólk. Rafrænar kosningar fara fram 6. til 13. mars nk.

Allar nánari upplýsingar má finna á vef VR, vr.is, og á minni síðu, halla.is.

Halla Gunnarsdóttir,

formaður VR.

Nýjar fréttir