Hinsegin vika Árborgar er haldin hátíðleg í fjórða sinn, vikuna 24. febrúar til 28. febrúar og er markmið vikunnar að auka fræðslu, skapa umræður og vera sýnileg.
Hinsegin vikan hefur á undanförnum árum verið mjög vel heppnuð og fjölmörg fyrirtæki tekið þátt. Víða mátti sjá regnbogakökur, regnbogablómvendi og hinsegin fánum flaggað. Mikil eftirvænting ríkir fyrir vikunni og margt spennandi á dagskrá hjá skólum sveitarfélagsins, F.Su, frístundaheimilum, félagsmiðstöðinni Zelsíuz og öðrum stofnunum sveitarfélagsins. Á bókasafni Árborgar er að finna veggspjöld sem er ætlað að veita fræðslu og efla skilning á hinsegin málefnum ásamt því að þar er að finna fjölbreytt úrval hinsegin bókmennta og fá gefins barmmerki með hinsegin fánum.
Miðvikudaginn 26. febrúar býður forvarnarteymi Árborgar í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurlands öllum íbúum á fræðslu um hinseginleikann með Sólveigu Rós. Sólveig Rós er foreldra- og uppeldisfræðingur með sérhæfingu í hinsegin málum og fjölbreytileika. Fræðslan fer fram í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands klukkan 19:30 og hvetjum við íbúa til að fjölmenna og fræðast um hinseginleikann. Sama dag verður einnig litríkur dagur í sveitarfélaginu og væri gaman að sjá sem flesta klæðast fötum í öllum regnbogans litum og fagna fjölbreytileikanum með okkur.
Forvarnarteymi Árborgar hvetur stofnanir og fyrirtæki sveitarfélagsins til þess að vera með og gera þessa hátíð að litríkri og skemmtilegri viku og sömuleiðis eru íbúar hvattir til að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og finna leiðir til þess að gera vikuna sem hátíðlegasta.