5 C
Selfoss

Skattafróðleikur KPMG á Selfossi

Vinsælast

Þau Lilja Dögg Karlsdóttir og Friðrik Einarsson fara fyrir skrifstofu KPMG á Selfossi þar sem starfar hópur reynslumikils starfsfólks. Rætt var við þau um væntanlegan fund um skattamál sem er á döfinni á næstunni og ber heitið Skattafróðleikur KPMG.

„Við erum að undirbúa fund um skattafróðleik sem verður haldinn á Hótel Selfossi fimmtudaginn 27. febrúar næstkomandi kl. 16:00. Þar verður farið yfir helstu breytingar á skattalögum sem hafa átt sér stað nýlega. Þar gefst því gott tækifæri fyrir fólk til að fá innsýn í breytingar í skattamálum sem áttu sér stað um áramót og hvernig þær geta haft áhrif á rekstur þeirra og persónuleg fjármál. Á fundinum verða sérfræðingar okkar hjá KPMG Law og munu þau einnig fara yfir ákveðin málefni sem tengjast erfðamálum og kynslóðaskiptum fyrirtækja og einnig skattlagningu íþróttafélaga,“ segir Lilja Dögg endurskoðandi sem hefur starfað hjá KPMG frá árinu 2000 og hefur víðtæka reynslu af fjármálaþjónustu við fyrirtæki og opinbera aðila. Hún er frá Keflavík og er með starfsstöðvar á Selfossi og Reykjanesbæ.

Friðrik er líka endurskoðandi og hefur starfað á skrifstofu KPMG á Selfossi um árabil og er einn helsti sérfræðingur KPMG í rafrænum lausnum og sjálfvirkni. Hann bendir á að það verði fleiri áhugaverð erindi á fundinum: „Í umfjölluninni um kynslóðaskipti fyrirtækja verður áherslan á fjölskyldufyrirtæki sem mögulega eru farin að huga að sölu eða tilfærslu á milli ættliða. Slík málefni geta verið flókin í framkvæmd og kalla á góðan undirbúning og sérfræðiþekkingu. Við ætlum að fara yfir þær leiðir sem standa til boða til að tryggja að kynslóðaskiptin gangi vel fyrir sig og minnki líkur á að ekki komi í ljós annmarkar síðar meir. Þar að auki verður áhugaverð umfjöllun um ný tilmæli frá Skattinum til íþróttafélaga um breytingar á skattlagningu launagreiðslna. Þetta er stórt mál sem getur haft mikil áhrif á rekstur félaganna og við munum útskýra helstu áhrif þessara tilmæla,“ segir Friðrik.

Þau bjóða öll áhugasöm velkomin á fundinn á Hótel Selfossi og það verði boðið upp á kaffi og meðlæti. „Það er gott að vera vel upplýst um nýjustu breytingar í skattamálum því það eru málefni sem varða okkur öll. Við hvetjum öll sem hafa áhuga á skattamálum til að mæta og taka þátt í umræðunni. Viðburðir sem þessir geta verið mjög gagnlegir til að byggja upp tengslanet og fá nýjar hugmyndir og sjónarhorn,“ segja þau Lilja Dögg og Friðrik að lokum.

Nýjar fréttir