3.2 C
Selfoss

Foreldrafélög sýna kennurum stuðning

Vinsælast

Foreldrafélög Grunnskólans í Þorlákshöfn og Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa sent frá sér yfirlýsingu til stuðnings kennara í yfirstandandi kjaraviðræðum.

„Við teljum mikilvægt að kennarar fái sanngjörn kjör sem endurspegla það mikilvæga starf sem þeir sinna við að mennta og styðja börnin okkar í námi og þroska. Jafnframt leggjum við áherslu á að sýna kennurum virðingu og meta starf þeirra að verðleikum. Öruggt og gott starfsumhverfi fyrir kennara skilar sér beint í betri skóla og aukinni velferð nemenda,“ segir í yfirlýsingu foreldrafélags Þorlákshafnar.

„Við gerum okkur grein fyrir að kjaradeilur og verkfallsaðgerðir geta haft áhrif á skólastarf og nemendur, sérstaklega þá sem eru í viðkvæmri stöðu. Því vonumst við til að lausn finnist sem fyrst og hvetjum alla aðila til að leggja sig fram um að ná farsælli niðurstöðu,“ segir einnig í yfirlýsingunni.

„Að lokum viljum við hvetja foreldra og forráðamenn til að ræða málið af yfirvegun og virðingu. Við hvetjum alla til að ræða málið á uppbyggilegan hátt og forðast að tala illa um kjarabaráttuna eða kennara barnanna okkar.“

Stjórn foreldrafélags Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri lýsir einnig yfir eindregnum stuðningi við kennara í baráttunni um betri og réttlátari kjör.

„Sjaldan hefur verið eins mikilvægt að kennarar fái sanngjörn laun og kjör þar sem þeir gegna lykilhlutverki í menntun barna okkar. Laun og kjör kennara eiga að endurspegla þá ábyrgð sem fylgir starfi og þá miklu menntun sem liggur að baki hvers kennara. Það að enn sé ekki búið að semja við kennara fimm mánuðum eftir upphaf kjaraviðræðna er með hæsta máta óeðlilegt og ósanngjarnt. Líka í ljósi þess að skrifað var undir samning um jöfnun launa milli markaða árið 2016,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Foreldrafélagið segir kennara gegna ómetanlegu hlutverki í samfélaginu. Þeir séu undirstaða menntakerfisins og hafi áhrif á komandi kynslóðir. Að með þekkingu sinni, fagmennsku og skuldbindingu stuðli kennarar að þroska, vexti og árangri nemenda sinna.

„Mikilvægt er að kennarar fái þá virðingu sem þeir eiga skilið fyrir þær áskoranir sem þeir takast á við á hverjum degi. Við gerum okkur grein fyrir að kennarar vinna oft langt umfram hefðbundinn vinnutíma, undir miklu álagi og með sífellt auknar kröfur án þess að það endurspeglist í kjörum eða starfsumhverfi þeirra. Þeir vinna óteljandi klukkustundir við að undirbúa kennslustundir, veita stuðning og leiðbeina nemendum sínum.“

Í yfirlýsingunni segir einnig að virðing fyrir kennurum feli í sér að viðurkenna mikilvægi þeirra í mótun framtíðarinnar. Það felur í sér að meta þeirra framlag, styðja þá í starfi sínu og tryggja að þeir hafi aðgang að þeirri aðstöðu og tækjum sem þeir þurfa til að sinna störfum sínum af kostgæfni. „Kennarar eru meira en bara miðlarar þekkingar – þeir eru leiðtogar, fyrirmyndir og innblástur fyrir nemendur sína.“

„Með því að viðurkenna mikilvægi kennara okkar og styðja þá, getum við stuðlað að betri menntun og bjartari framtíð fyrir alla.“

„Við viljum þakka kennurum okkar fyrir ómetanlegt starf í þágu barna okkur og viljum koma því á framfæri að við stöndum með kennurum í þessari löngu, erfiðu og oft ósanngjörnu baráttu og hvetjum því ríki og sveitarfélög til að ganga til samninga við kennara og viðurkenna mikilvægi þeirra,“ segir foreldrafélagið að lokum.

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Ljósmynd: arborg.is.

Nýjar fréttir