8.9 C
Selfoss

Ábreiða Hr. Eydís í fyrsta sinn aðgengileg á Spotify

Vinsælast

Það er stór dagur hjá Hr. Eydís í dag, en ábreiða með hljómsveitinni er nú í fyrsta skipti aðgengileg á Spotify. Hljómsveitin varð tveggja ára gömul núna í febrúar og því tilvalið tækifæri að láta loksins verða af því að koma lagi á Spotify. Fyrir valinu varð lagið Tarzan Boy sem er jafnframt mest spilaða ábreiða hljómsveitarinnar á YouTube-rásinni með rétt tæplega 25 þús streymi.

„Hr. Eydís fær reyndar tölvupósta og skilaboð í hverri viku um að hlaða ´80s ábreiðunum niður á Spotify og nú loksins er fyrsta lagið komið á streymisveituna og hver veit, kannski koma fleiri ábreiður inn þar. Lagið er reyndar óskalag frá fylgjanda okkar en það er algjört „one hit wonder“,“ segir í tilkynningu frá hljómsveitinni.

„Baltimora var reyndar undarlegur kokteill. Söngvari sveitarinnar var Jimmy McShane frá Norður-Írlandi sem reyndar var með tvöfalt ríkisfang og var líka ítalskur ríkisborgari. Með Jimmy var líka hljómborðsleikarinn og útsetjarinn Maurizio Bassi. Sagt er að Bassi hafi í raun sungið Tarzan Boy en að Jimmy hafi verið frontmaðurinn sem „mæmaði“ lagið svona líka listilega. Jimmy var reyndur og góður dansari svo þetta hefur kannski algjörlega verið málið. Orðrómurinn hefur þó ekki verið staðfestur, en hann er þó mjög sterkur.“

„Ég man þegar Tarzan Boy var spilað á skólaböllunum í Hagaskóla í gamla daga. Það sungu sko allir með í Tarzan-kaflanum,“ segir Örlygur Smári, söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og bætir við „Það reynir reyndar á að taka þennan Tarzan-kafla. Ég þurfti að syngja lagið nokkrum sinnum í röð þegar við æfðum það upp og var algjörlega búinn á því eftir æfinguna. Ég treysti á að áhorfendur aðstoði mig með lagið í Háskólabíói í vor þar sem við verðum með risa ´80s partý…. Alvöru ´80s partý,“ segir Örlygur og hlær dátt.

Jimmy McShane lést árið 1995. Hann var alinn upp af íhaldssamri fjölskyldu á Norður-Írlandi sem sneri við honum baki þegar hann sem ungur maður kom út úr skápnum. Þar sem fólk getur verið þröngsýnt, þá er nú betra að vera góð hvert við annað og sýna fólki umburðarlyndi, tillitssemi og hlýju.

Hér að neðan má hlusta á ábreiðuna á Spotify við lagið Tarzan Boy.

Nýjar fréttir