-2.2 C
Selfoss

„Það sem einn hendir, er öðrum gullmoli“

Vinsælast

Þrettán mæður hafa tekið sig saman og halda markað og kökubasar í Samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka 23. febrúar nk. Þær eiga það sameiginlegt að hafa eignast barn í byrjun árs 2024 og eru þær saman í svokölluðum mömmuhóp. Margt verður í boði á markaðnum.

Vill endurheimta bílskúrinn

Hugmyndin að markaðnum kviknaði þegar eiginmaður einnar mömmunnar lýsti því yfir að hann ætlaði sér að endurheimta bílskúrinn sinn þar sem smám saman hafði safnast upp alls konar dót, föt og ónotaðir hlutir.

Þetta varð kveikjan að spjalli okkar á milli, þar sem við áttuðum okkur á því að við værum allar með fataskápa, geymslur og bílskúra fulla af fötum og munum sem fengju ekki lengur notkun – frá börnunum okkar, okkur sjálfum og jafnvel eiginmönnunum!“ segir Berglind Björgvinsdóttir, ein mæðranna, í samtali við Dagskrána.

Hún segir þær margar hafa nýtt sér þjónustu hjá Krílafló og elski þá hugmyndafræði. „Okkur langaði alls ekki að keppa við þau. Þess vegna ákváðum við að halda markaðinn á sunnudegi þegar Krílafló er lokað, þannig að við styðjum hringrásina saman,“ segir Berglind.

Aðaltilgangurinn að hafa gaman

Hún segir aðaltilgang markaðarins vera að hafa gaman, losa sig við hluti sem eru hættir að þjóna þeim og gefa þeim nýtt líf hjá öðrum. Planið er líka að safna í sjóð fyrir mömmurnar svo þær geti átt skemmtilegan dag saman í fæðingarorlofinu. „Að skella sér saman í brunch eða fara í dagsferð getur stundum verið lúxus þegar maður er í fæðingarorlofi, enda ekki alltaf mikill peningur afgangs þegar mánuðurinn er liðinn,“ tekur Berglind fram.

Við vildum því nota þetta tækifæri til að safna fyrir skemmtilegum degi saman – því við vitum allar hversu mikilvægt það er að hlúa að sjálfri sér og eiga góðar minningar með vinkonunum.Það besta er að við gerum þetta í gegnum endurnýtingu og hringrásarhugsun.

Undirbúningur hefur gengið eins og í sögu að sögn Berglindar. „Við erum duglegar að hittast, spjalla, skipuleggja og – að sjálfsögðu – hlæja mikið. Við erum allar mjög spenntar fyrir þessum viðburði og það er virkilega gaman að sjá hvað hugmyndin hefur fengið góðar viðtökur.

Orðnar mjög nánar

Hópurinn kynntist í gegnum mömmuhittinga þar sem allar voru með börn sem fæddust á tímabilinu janúar til maí 2024. Hópurinn hefur svo stækkað jafnt og þétt. „Við drógum vinkonur okkar með sem voru einnig með börn á svipuðum aldri. Í dag erum við orðnar mjög nánar, börnin náin og hittumst við reglulega – hvort sem það er í göngutúr með krílin, kaffispjalli eða jafnvel á kvöldin án barnanna. Það er ómetanlegt að hafa svona góðan hóp í svona einstöku lífskeiði,“ segir Berglind.

Frábært þegar hlutir fá nýtt líf

Það verður nóg í boði fyrir öll á markaðnum. Mæðurnar selja bæði eigin föt og föt barnanna sinna ásamt fleiru. „Við eigum börn á öllum aldri, frá eins árs upp í sautján ára, þannig að úrvalið verður fjölbreytt. Auk þess verða heimilisvörur, leikföng, bækur og fleira í boði – og sumar okkar hafa meira að segja gert stórtækar tiltektir í fataskápum eiginmannanna! Það verður því eitthvað fyrir alla fjölskylduna,“ tekur Berglind fram og segir að ef fólk finni ekki eitthvað við sitt hæfi sé hægt að næla sér í köku á kökubasarnum.

Að lokum talar Berglind um hve mikilvægir svona markaðir séu fyrir samfélagið.

Hringrásin er algjör snilld. Það sem einum finnst drasl getur orðið dýrmætur fjársjóður hjá öðrum. Þannig náum við ekki bara að minnka sóun heldur hjálpum við líka öðrum að finna hluti á hagstæðu verði. Það er svo frábært að vita að föt, leikföng og hlutir fái nýtt líf hjá nýjum eigendum í staðinn fyrir að enda í ruslinu.

Mæðurnar hvetja öll til að mæta á markaðinn á sjálfan konudaginn, sunnudaginn 23. febrúar og eiga saman skemmtilega stund. Opið verður frá klukkan 12-17.

Komdu og sjáðu hvort þú finnir fjársjóð – eða komdu bara til að fá þér ljúffengan bita á kökubasarnum okkar og kíkja á stemninguna. Það er aldrei að vita nema þú finnir eitthvað dásamlegt fyrir sjálfa/n þig eða fjölskylduna.

Munið: Það sem einn hendir, er öðrum gullmoli!

Við hlökkum til að sjá ykkur í banastuði á konudaginn!

Nýjar fréttir