Kristján Óðinsson er matgæðingur vikunnar.
Ég vil þakka Ingva kærlega fyrir þessa áskorun og um leið fyrir skemmtilega uppskrift sem svíkur aldrei þegar kíkt er í sveitina.
Ingvi tók fram í síðustu viku að ég hafi ferðast landshorna á milli og prófað hina ýmsu rétti. Ég ætla þó að deila með ykkur uppskrift sem ég hef átt í vasanum á öllum þeim stöðum sem ég hef komið á og hefur aldrei svikið. Það klikkar ekki að fólk spyrji um uppskriftina og trúir því varla hversu einföld hún er miðað við bragðið.
Einnig hefur samstarfsfélagi minn, hún Þóra, verið í bölvuðu brasi við fermingarbaksturinn og segist engan tíma hafa í hann. Þá koma aspas-smábrauðin sterk inn, því þau taka einungis örfáar mínútur að útbúa.
Hráefni
1 dolla sýrður rjómi
1 dolla rækjusmurostur
3-4 msk majónes
1 dós grænn aspas
Smábrauð að eigin vali
Aðferð
Hrærðu saman sýrða rjómanum, rækjusmurostinum og majónesinu.
Helltu vatninu af aspasnum, þurrkaðu hann með eldhúspappír og stappaðu hann létt áður en þú hrærir honum saman við blönduna.
Skerðu smábrauðin í helminga og smyrðu blöndunni á.
Settu í ofn við 190°C í nokkrar mínútur, eða þar til brauðið byrjar að brúnast og osturinn gyllast.
Ég skora á vin minn og matgæðinginn Markús Árna Vernharðsson til þess að deila með okkur þeim töfrum sem hann býr yfir í eldamennskunni.
Það að vera boðið í mat hjá Markúsi er ávallt fagnaðarefni. Þú veist aldrei hvað hann býður upp á, en eitt er víst, svikinn verður maður ekki! Markús hefur ferðast um allan heim, kynnt sér hinar ýmsu matarmenningar og hikar ekki við að prófa nýjungar í eldhúsinu. Ég er því spenntur að sjá hvaða rétt hann býður okkur upp á í næstu viku.