6 C
Selfoss

Sunnlendingar áberandi í Söngvakeppninni

Vinsælast

Úrslit Söngvakeppninnar 2025 fara fram um helgina þar sem Íslendingar velja framlag sitt í Eurovision sem fer fram í Basel í Sviss í maí. Nokkrir Sunnlendingar eru á meðal þeirra sem taka þátt og öll á mismunandi sviðum. Júlí Heiðar Halldórsson frá Þorlákshöfn mætir á svið og syngur lagið Fire ásamt kærustu sinni Þórdísi Björk Þorfinnsdóttur. Með þeim á sviðinu er dansarinn og Hvergerðingurinn Baldvin Alan Thorarensen, en hann dansar einnig með VÆB bræðrum. Síðast en ekki síst er Alda Ólafsdóttir höfundur lagsins Set me free sem Stefán Jakobsson flytur. Alda býr bæði í Flóahreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. „Það er einfaldlega vegna þess að við eigum þrjá ketti sem geta ekki búið saman svo við búum á báðum stöðum, skoppum á milli.”

Ásamt því að vera lagahöfundur rekur Alda verslunina Made in Iceland á Selfossi. Hún segir það ganga mjög vel að sinna bæði lagasmíðinni og versluninni. „Ég á svo æðislegan mann, Atla Lillendahl, sem styður mig svakalega í öllu, annars gæti ég ekki gert þetta allt.“

Alda er mjög stolt af laginu Set me free og segist hafa fengið besta söngvara á landinu til að flytja það. Hún samdi lagið á Covid- tímanum og söng það upprunalega sjálf en segir að það sé eins og samið fyrir Stefán.“ Þetta lag hefði alveg getað verið samið fyrir hann því hann gjörsamlega „brillerar“ í þessu. „It was meant to be“ eins og maður segir á góðri útlensku,“ segir Alda.

Hún segir það túlkunaratriði hvers og eins um hvað lagið snúist. „Það er ekkert rangt, bara rétt. Ég held að við flest höfum verið í þeim aðstæðum að þrá einhvers konar frelsi. Það getur verið svo margt,“ segir Alda.

Að lokum segist hún berjast stolt fyrir hönd Suðurlands í keppninni á laugardaginn.

Júlí Heiðar og Baldvin Alan eru líka stolt Suðurlands í keppninni. Baldvin er lengst til vinstri og Júlí þriðji frá vinstri.
Ljósmynd: Mummi Lú.

 

Nýjar fréttir