VISS vinnu- og hæfingarstöð á Hvolsvelli er komin í nýtt glæsilegt húsnæði. Formleg opnun var 13. febrúar sl. Fjöldi fólks mætti á opnunina og var mikil ánægja með nýja húsnæðið. Boðið var upp á flottar veitingar og skemmtiatriði.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Kjarnastarfsemi í bænum
Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, fór með nokkur orð og talaði um hversu mikilvæg starfsemin væri sveitarfélaginu.
„Ég held að VISS sé orðin ein af okkar kjarnastarfsemi í bænum. Þetta er svo frábært verkefni. Það er okkur mikil ánægja í Rangárþingi eystra að hafa geta skaffað þetta húsnæði. Hér er hægt að vinna og þetta er góður vinnustaður. Það er alltaf gaman að koma hingað, það er virkilega góður andi. Vonandi verður VISS við lýði sem lengst,“ sagði Anton Kári.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Kvenfélögin úr Rangárþingi eystra afhentu VISS áritaðan skjöld fyrir þrekhjól sem þær gáfu starfseminni. Hefur það komið að mjög góðum notum og mun gera um ókomna tíð.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Bylting fyrir starfsemina
Elías Árnason forstöðumaður VISS á Hvolsvelli segir nýja húsnæðið vera frábært og algjöra byltingu fyrir starfsemina sem sé nú með 11 starfsmenn og þar af þrjá fastráðna.
„Við vorum í gamla matsalnum á Kirkjuhvoli, miklu minni og það er eiginlega bara eitt rými. Þar var vinnuaðstaðan, eldhúsið, matsvæðið, engin skrifstofa og við vorum með eina pínulitla geymslu. Þetta átti allt að vera þarna í þessu eina rými. Þetta býður upp á miklu meiri möguleika. Við getum verið með þetta sem vinnustað.“
Í nýja húsnæðinu er hægt að vinna á nokkrum stöðum. Það er fjölbreytt starfsemi sem fer fram hjá VISS. Nú eru þau með smíðaverkstæði, saumaverkstæði og málningarverkstæði og heilsuþjálfunar- og hvíldarrými. Húsnæðið býður upp á að hægt sé að vinna á öllum stöðunum án þess að það trufli.
„Við erum búin að versla okkur dáldið af verkfærum og dóti sem Húsasmiðjan og aðrir hafa verið duglegir að styðja okkur með. Þannig að við getum unnið í látum hér, lokað öllum hurðum, þannig að þau sem eiga erfitt með hljóðáreiti og svoleiðis geta fengið að vera í friði einhvers staðar annars staðar,“ segir Elías.
Stærsta verkefnið þeirra er að sauma tuskur fyrir hótel og fyrirtæki. „Við gerum ofboðslega mikið af tuskum fyrir Rangá, Stracta og öll verkstæðin sem eru á svæðinu,“ tekur Elías sem dæmi.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Hagstæðara að vera með þjónustuna á einum stað
Elías segir marga sækja starfsemina. Öll þau sem eru með fötlunargreiningu geta komið í VISS. Hann segir starfsemi sem þessa bráðnauðsynlega fyrir samfélagið og gott að geta sótt alla þjónustu á einn stað frekar en út um allan bæ.
„Þetta er fyrir samfélagið, svona fjárhagslega séð, langbesta leiðin að geta hjálpað þessu fólki. Það er kannski hópur sem fær ekki þá þjónustu sem það þarf og endar þá miklu frekar á heilsugæslunni, sjúkraþjálfun eða hjá félagsþjónustunni og svoleiðis. Það er miklu hagstæðara fyrir alla að vera á einum stað.“

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Stöðin fær sjúkraþjálfara til sín tvisvar í viku sem Elías segir mjög gott fyrir hópinn.
„Áður en við fluttum hingað þá voru allir í hópnum hérna sem þurftu á sjúkraþjálfun að halda en mættu ekki. Það var erfitt að komast og þau gleymdu því og alls konar. En eftir að við fluttum hingað þá eru allir að fá þjónustu, sem er frábært. Félagsþjónustan kemur hingað sirka einu sinni í mánuði. Þetta bindur svo mikið saman. Fólk getur fengið miklu fjölbreyttari og réttari þjónustu með því að koma hingað.“
Að lokum segir Elías VISS vera frábæran stað fyrir fólk að koma sér úr félagslegri einangrun.