Leikfélag Selfoss frumsýndi glæpsamlega gamanleikinn Átta konur fyrir fullu húsi 14. febrúar sl. Átta konur leika í sýningunni eins og titillinn gefur til kynna og einum manni bregður fyrir inn á milli. Rakel Ýr Stefánsdóttir leikstýrði. Sýningin er hennar fyrsta verk í fullri lengd sem hún leikstýrir. Hún er kunn Litla leikhúsinu við Sigtún en hún tók þátt í uppsetningum félagsins sem krakki. „Ég er virkilega þakklát fyrir þetta hús og þetta félag. Hér lærði ég allt sem ég kann og hér fékk ég að rækta minn áhuga og drifkraft fyrir leiklistinni,“ segir Rakel í pistli sínum í leikskrá sýningarinnar. Blaðamaður lagði leið sína á frumsýningu og skemmti sér mjög vel.
Sýningin Átta konur er ólík flestum sýningum. Um er að ræða gamanleik sem gerist árið 1963 en er á sama tíma harmleikur, sápuópera og söngleikur. Sjö konur eru samankomnar í bústað þegar þær uppgötva hræðilegan atburð. Eftir hann er lítið um traust og tortryggnin allsráðandi. Þegar önnur kona bætist svo við fara áhyggjurnar að aukast.
Leikarar stóðu sig með prýði og greinilegt að mikil reynsla ríki í leikhúsinu. Má þar nefna Írisi L. Blandon sem fer á kostum sem amma Inga. Leikurinn var áreynslulaus og mjög sannfærandi og persónan fyndin. Mætti segja að hún sé senuþjófur sýningarinnar. Sama má segja um Sigríði Hafsteinsdóttur í hlutverki Ágústu. Hún túlkar hana mjög skemmtilega og gat maður hlegið mikið að henni á sama tíma og maður vorkenndi henni. Hinar leikkonurnar stóðu sig líka mjög vel og greinilegt að mikill metnaður hefur verið lagður í persónusköpun. Svo var reynsluboltinn Elli í hlutverki Markúsar. Hans framlag til sýningarinnar var ekki mikið en alveg nóg til að heillast að persónunni.
Ekki má gleyma fólkinu á bakvið tjöldin. Leiksýning verður ekki til án þeirra. Leikmyndin var mjög metnaðarfull og flott og tókst þeim vel að fanga sjöunda áratuginn. Hún var engu síðri en leikmyndirnar í atvinnuleikhúsunum. Það sama má segja um búninga, smink og hár. Tæknibrellurnar voru til þess að sýningin var enn trúverðugri og lýsingin til fyrirmyndar.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.
Ef þér finnst gaman að hafa gaman og getur ekki valið á milli gamanleiks, harmleiks, sápuóperu eða söngleiks er ekkert annað í stöðunni en að kaupa miða á Átta konur.
Miðasala er á Tix.is.