Oft og tíðum hefur verið rætt hér í Árborg um að það vanti fyrirtæki. Margur hefur kannski spurt sig hver sé ástæðan fyrir því að fyrirtæki komi ekki hingað? Sumir myndu svara því að hér væri ekki til peningur til að gera lönd tilbúin fyrir þær starfstöðvar og núverandi innviðir séu ekki nógu sterkir til að bera þann iðnað sem kæmi til Árborgar. Líklegt er að þessir þættir sem hafa verið taldir upp hafi áhrif en undirritaður telur að það vanti meira en bara peninga og sterkari innviði, heldur vanti okkur skýrari stefnu í hvernig við getum leyft fyrirtækjunum að þróa sinn vettvang og í leiðinni fengið nýtt og drifmikið fólk sem gæti nýst þeim í framtíðinni. En stóra spurningin er hvernig er hægt að selja fyrirtækjunum þá hugmynd að koma í Árborg?
Hvað skal gera?
Undirritaður leggur hér til að Árborg ásamt ríkinu fari að þróa starfsstöðvar sem háskólar landsins geti nýtt sér. Því hér í sveitarfélaginu eru margir staðir sem háskólar geta nýtt sér þegar það kemur að kennslu eða rannsóknum. Þessu til rökstuðnings er hægt að nýta sér Þjórsárhraunið sem þekur fjöruna á Eyrarbakka og Stokkseyri. Í grennd við bæina eru einnig fuglafriðlönd sem háskólar og fyrirtæki gætu nýtt sér við rannsóknir. Á Eyrarbakka eru einnig gömul byggðarlög sem fornleifafræðingar og sagnfræðingar gætu nýtt sér fyrir rannsóknir. En það má ekki gleyma að í grennd við Árborg eru fyrirtæki að byggjast upp. Ef nefna á dæmi þá er fiskeldi að spretta upp af miklum krafti í Ölfusi og væri það sterkur leikur að geta boðið upp á nám fyrir þá sem vilja starfa í fiskeldi. Einnig eru nokkrir húsakostir sem ríkið gæti notað eða keypt af sveitarfélaginu. Húsnæðið sem hýsti unglingadeild Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri gæti verið ágætis staður til að byrja á. Svo væri hægt að selja húsnæðið sem bókasafnið er í. Einnig væri hægt að hvetja ríkið til að breyta Litla-Hrauni í háskólaver þegar nýtt fangelsi verður tekið til notkunar.
Einn fyrir alla og allir fyrir einn
Ef þessi hugmynd yrði að veruleika þá gætu fyrirtækin og háskólarnir unnið saman og þróað starf sitt í þá áttina að fólkið sem væri að læra hér í Árborg myndi á endanum fá vinnu hjá þeim fyrirtækjum sem hér kæmu. Ef nýsköpunarfyrirtæki myndu koma í sveitarfélagið þá gætu þau og háskólarnir unnið með íbúum sveitarfélagsins og leyft þeim að koma með hugmyndir sem gætu nýst þeim. En nýsköpun er ekki af skornum skammti í Árborg. Sveitarfélagið er í samstarfi við Hreiðrið sem er stýrt af Háskólasamfélagi Suðurlands en að sjálfsögðu er alltaf hægt að gera betur þegar það kemur að stuðla að nýsköpun og gæti Árborg farið í að þróa starfsaðstöður sem gætu hjálpað kraftmiklu fólki sem brennur fyrir nýsköpun. Ef vel til tekst þá gæti þetta orðið aðdráttarafl fyrir fólk til að búa í Árborg og stuðlað að frekara lóðaframboði á Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem tækifærin eru til að byggja nýsköpunar- og háskólaver.
Formaður Sjálfstæðisfélags Eyrarbakka,
Gísli Rúnar Gíslason.