Lið HSK/Selfoss gerði góða ferð á Meistaramót Íslands 15-22 ára um helgina. Í heildina vann liðið 12 Íslandsmeistaratitla á mótinu, 12 silfurverðlaun og 10 bronsverðlaun. Auk þess sigraði liðið tvo aldursflokkatitla en það voru flokkarnir 15 ára stúlkur og 18-19 ára piltar. Liðið endaði í 3. sæti heildarstigakeppninnar eftir harða keppni um þriðja sætið við UFA.
Af einstökum afrekum ber það hæst að Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, bætti eigið Íslandsmet í þrístökki í flokki 15 ára stúlkna þegar hún stökk 11,59 m. Gamla metið hennar var 11,46 m. Stökkið var að sjálfsögðu líka HSK-met og mótsmet. Anna Metta náði í heildina fimm Íslandsmeistaratitlum á mótinu.

Ljósmynd: Aðsend.
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson bætti eigið HSK-met í kúluvarpi þegar hann kastaði 15,62 m og hafnaði í öðru sæti í flokki 16-17 ára. Kastið er einnig 5. besti árangurinn frá upphafi í afrekaskrá pilta 16-17 ára. Ívar Ylur Birkisson, Íþrf. Dímon, bætti einnig eitt HSK-met á mótinu en hann varð í 2. sæti í 60 m grindahlaupi á tímanum 8,33 sek. Fyrra metið átti Dagur Fannar Einarsson, 8,46 sek. Ívar Ylur varð einnig Íslandsmeistari í hástökki þegar hann stökk 1,92 sem er persónulegt met. Boðhlaupssveit 16-17 ára stúlkna urðu Íslandsmeistarar og settu HSK met í 4x200m hlaupi. Þær hlupu á 1:51,63 en gamla metið 1:51,80 mín og hafði staðið frá árinu 2012. Sveitina skipuðu Anna Metta Óskarsdóttir, Umf. Selfoss, Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþrf. Garpi, Arndís Eva Vigfúsdóttir, Umf. Selfoss og Hugrún Birna Hjaltadóttir Umf. Selfoss.
Aðrir Íslandsmeistarar úr liði HSK/Selfoss: Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, Umf. Selfoss, sigraði 800 m hlaup pilta 18–19 ára á tímanum 2:02,30 mín. Helga Fjóla Erlendsdóttir, Íþrf. Garpi, varð þrefaldur Íslandsmeistari en hún sigraði 60 m grindahlaup á tímanum 9,36 sek, sigraði hástökk með 1,61 m háu stökki og langstökkið með 5,36 m löngu stökki. Piltar 16–17 ára urðu svo Íslandsmeistarar í 4x200m hlaupi á tímanum 1:37,87 mín.

Ljósmynd: Aðsend.
Næsta verkefni liðsins er MÍ aðalhluti sem fer fram 22.-23. febrúar og svo fara bikarkeppnir FRÍ fram 1. mars.