Hellubúinn Helga Melsted er ein af ellefu sem nýverið fékk inngöngu á leikarabraut Listaháskóla Íslands. Gríðarlega erfitt er að komast inn þar sem aðsóknin á brautina er alltaf mjög mikil. Helga byrjar í náminu næsta haust og er tilhlökkunin mikil.
Inntökuferlið lærdómsríkt og þroskandi
Helga segir væntingar sínar um að komast inn í námið ekki hafa verið mjög miklar. „Ég hafði sótt um árið áður og var með meiri væntingar þá. Ég var meira meðvituð um það núna að það er fullt af hæfileikaríku fólki að sækja um og því erfitt að komast inn. En auðvitað vonaði ég heitt að þetta myndi gerast,“ segir Helga í samtali við Dagskrána.
Hún segir inntökuferlið hafa verið stressandi en á sama tíma mjög skemmtilegt. „Ferlið skiptist í þrjú þrep og maður þarf að komast áfram í hverju þrepi til að komast inn. Þriðja þrepið var mest krefjandi en líka skemmtilegast. Þangað komast í kringum 20 manns sem í fimm daga taka þátt í alls konar verkefnum fyrir framan dómnefnd. Inntökuferlið inn í skólann er lærdómsríkt, þroskandi og góð reynsla.“
Las svarið við umsókninni nokkrum sinnum
Helga segist hafa öskrað, hlegið og grenjað í klukkutíma þegar hún fékk fréttirnar að hafa komist inn. Hún var í göngu með hundinn sinn að ímynda sér hvernig það yrði ef hún kæmist inn. Um leið og hún kom inn heyrði hún tilkynningu í símanum sínum og vissi um leið að þetta væri tölvupóstur frá LHÍ.
„Ég las yfir svarið við umsókninni alveg þó nokkrum sinnum til að vera viss um að þetta væru hreinlega ekki einhver mistök. Svo hringdi ég í mömmu og gerði hana smá hrædda held ég með tóninum í röddinni minni. Eftir það hringdi vinkona mín Sirrý og ég grenjaði enn þá meira með henni.“
Horfði stanslaust á Söngvaborg
Áhugi Helgu á leiklistinni byrjaði strax þegar hún var lítil.
„Ég var alltaf að syngja og „performa“ eitthvað heima. Ég horfði stanslaust á Söngvaborg og söng og dansaði með. Ein jól eru mjög eftirminnileg og oft rifjuð upp heima þegar ég fékk míkrafón í jólagjöf og setti upp svaka „show“ fyrir fjölskylduna og lét alla syngja með. Í Grunnskólanum á Hellu hafði ég mjög gaman að allri sviðsframkomu en á hverju ári eru þar settar upp jóla og vorsýningar, þar sem allir nemendur fá að fara upp á svið.“

Hún segir áhugann hafa verið minna áberandi á unglingsárunum en þá fór hún að æfa fótbolta. Leiklistadraumurinn var samt alltaf til staðar.
„Ég ímyndaði mér oft að ég væri hinar ýmsu persónur í kvikmyndum og leikritum. Mig langaði líka alltaf svo mikið að æfa dans en það var ekki mikið í boði á Hellu en var svo heppin að vera keyrð á fimleika æfingar á Selfossi þar sem fimleikadansarnir voru uppáhalds tímarnir mínir. Þegar ég gat keyrt mig sjálf fór ég að æfa jazzballet í Dansakademíunni á Selfossi,“ segir Helga.
Samdi söngleik í fullri lengd
Helga fékk ekki formlega reynslu af leiklist fyrr en hún fór úr leiklistaráfanga í FSu og hefur gert margt síðan.
„Þar tók ég þátt í hinum ýmsum leikritum og svo lá leið mín í Leikfélag Hveragerðis. Þar lék ég Auði í Litlu Hryllingsbúðinni og er núna að leika Mæju jarðarber í Ávaxtakörfunni. Ég tók eina önn í leiklist í Kvikmyndaskólanum og lærði þar helling um kvikmyndagerð og leiklist. Ég tók grunnpróf í söng og hef verið að æfa dans líka.“

Hún segir reynsluna úr áhugaleikhúsinu hafa hjálpað sér að komast inn í LHÍ.
„Þar fékk ég mikla reynslu á að vera á sviði. Áhugaleikhús eru frábær leið til að ná sér í reynslu og gera það sem manni finnst skemmtilegt með fólki sem hefur áhuga á því sama. Það að taka þátt í svona flottum uppsetningum og fá að gefa af sér fékk mig líka til að átta mig ennþá betur á að þetta er það sem mig langar að gera. Leikfélag Hveragerðis er öflugt leikfélag með yndislegu fólki og ég hvet alla sem hafa áhuga að kynna sér starfið þar.“

Skemmtilegasta verkefni sem Helga hefur tekið þátt í er söngleikur sem hún og vinkonur hennar skrifuðu saman.
„Ég og þrjár vinkonur mínar endurvöktum Leikfélag FSu. Við skrifuðum og settum upp okkar eigin söngleik sem fékk nafnið Á bak við Tjöldin. Þetta var algjört ástríðuverkefni. Við vorum fjórar að stússast í að skrifa handrit, semja lög og dansa og leika líka. Við fengum flottan hóp af fólki með okkur í sýninguna og vorum bara nokkuð stoltar með sýninguna og viðtökurnar á henni.“

Draumar geta ræst
Helga segist vera spennt fyrir náminu en sé enn í sjokki yfir því að hafa komist inn. „ Ég er kannski ekki alveg farin að gera mér grein fyrir hvað ég er að fara út í. Ég ætla að nota tímann fram að hausti til að undirbúa mig og njóta þess að vita hvað er framundan.“
Að lokum er Helga með ráð fyrir þau sem hafa áhuga á að feta sömu braut og hún.
„Vertu trú sjálfri þér, eltu drauma þína! Ekki gefast upp þótt á móti blási og leiðin virðist ekki greið í fyrstu tilraun. Draumar geta ræst, ekki gleyma því.“