Tómas Valur Þrastarson var valinn íþróttamaður Ölfuss 2024 fyrir góðan árangur í körfubolta.
Frá þessu er greint á heimasíðu Ölfuss.
Hann er vel að titlinum kominn með langan og farsælan keppnisferil í yngri flokkum Þórs og yngri landsliðum KKÍ. Tómas Valur lék stórt hlutverk í meistaraflokksliði Þórs sem var í toppbaráttu tímabilið 2023-2024. Í lokahófi KKÍ var hann valinn í úrvalslið Subway-deildar auk þess að vera valinn besti ungi leikmaður ársins. Tómas var einn af betri leikmönnum U-20 ára landsliðs Íslands sem lék í A-deild Evrópumótsins í körfuknattleik. Þá hlotnaðist Tómasi sá heiður að vera valinn í landsliðshóp A-landsliðs karla í fyrsta sinn á árinu. Tómas fór á vit ævintýranna síðastliðið haust þegar hann fékk skólastyrk til þess að spila með Washington State University í Bandaríkjunum.
Eftirtaldir íþróttamenn voru í kjöri til íþróttamanns Ölfuss 2024:
- Bjarki Rúnar Jónínuson fyrir góðan árangur í knattspyrnu
- Bríet Eva Guðmundsdóttir fyrir góðan árangur í fimleikum
- Haraldur Ásgeir B. Haraldsson fyrir góðan árangur í rafíþróttum
- Kristrún Ríkey Ólafsdóttir fyrir góðan árangur í körfuknattleik
- Margrét Björg Jónsdóttir fyrir góðan árangur í keilu
- Tómas Valur Þrastarson fyrir góðan árangur í körfuknattleik
- Unnur Rós Ármannsdóttir fyrir góðan árangur í hestaíþróttum
- Valgerður Einarsdóttir Hjaltested fyrir góðan árangur í bogfimi
- Védís Huld Sigurðardóttir fyrir góðan árangur í hestaíþróttum
