Fjölmenni kom á opnun í Listasafni Árnesinga í Hveragerði á laugardaginn þar sem þrjár nýjar sýningar opnuðu. Sendiherra Indlands R. Ravindra hélt opnunarræðu ásamt safnstjóra safnsins Kristínu Scheving og sýningarstjórarnir Pari Stave og Daría Sól Andrews héldu einnig stuttar ræður í tilefni dagsins.

Ljósmynd: Aðsend.

Ljósmynd: Aðsend.
Indverska sendiráðið bauð upp á veitingar sem og Matkráin sem styrkir allar sýningar safnsins með snittum.

Sýningarnar standa yfir þangað til í ágúst þannig að það verður nægur tími til að koma og njóta en best er að koma nokkrum sinnum því margt er að sjá, alls sýna 23 listamenn verk sín í safninu um þessar mundir og þar á meðal 12 indverskir listamenn.

Ljósmynd: Aðsend.
Það er ókeypis aðgangur í safnið og er opið alla daga nema mánudaga fram á sumar, og nú mun safnið bjóða upp á langa fimmtudaga þar sem boðið verður upp á viðburði til kl. 21:00. Við tökum vel á móti uppástungum um viðburði og hægt er að senda póst á listasafn@listasafnarnesinga.is
13. febrúar verður boðið upp á ókeypis teikninámskeið fyrir byrjendur og er það breski teiknarinn Simon Barnes sem kennir á því námskeiði. Sjá meira á vefsíðu safnsins og á samfélagsmiðlum.
Safnið er rekið af Héraðsnefnd Árnessýslu og hlýtur einnig styrki frá Safnaráði, Uppbyggingarsjóði Suðurlands, Barnamenningarsjóði, Hveragerðisbæ og einnig hafa einkaaðilar stutt við starfið sem við þökkum innilega fyrir.