Sveitarfélagið Ölfus hefur, ásamt Hafnarsjóði Þorlákshafnar, Carbfix hf., Coda Terminal hf. og Veitum ohf., samþykkt viljayfirlýsingu um samstarf varðandi markvissa könnun á forsendum uppbyggingar og reksturs athafnasvæðis til móttöku, niðurdælingar og bindingar CO₂ í Þorlákshöfn.
Greint er frá þessu á heimasíðu Sveitarfélagsins Ölfuss.
Með þessu samstarfi er stefnt að því að kanna hvort hagsmunir samfélagsins í Ölfusi fari saman með áætlunum Carbfix, Coda Terminal og Veitna um að þróa og innleiða nýja og umhverfisvæna lausn fyrir varanlega kolefnisbindingu með Carbfix-tækninni, sem byggir á niðurdælingu koldíoxíðs í basaltberglög þar sem það steingerist og verður hluti af jarðskorpunni. Coda-stöðin mun taka á móti CO₂ frá innlendum og alþjóðlegum aðilum og stuðla að sjálfbærri atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu.
Verkefnið er þegar nokkuð vel kynnt í samfélaginu í Ölfusi enda hefur sambærileg starfsemi átt sér stað á Helliheiði í Ölfusi síðan 2012 án vandkvæða.
Áhrif og ávinningur fyrir samfélagið
Með uppbyggingu Coda-stöðvarinnar í Ölfusi kunna að skapast fjölbreytt atvinnutækifæri, auknar tekjur fyrir sveitarfélagið og aukin nýting hafnaraðstöðu í Þorlákshöfn. Stefnt er að því að tryggja að verkefnið samræmist stefnu sveitarfélagsins um sjálfbæran vöxt græna hagkerfisins og stuðla að nýsköpun á sviði loftslagsmála.
Aðilar viljayfirlýsingarinnar munu á næstu mánuðum vinna að stefnumörkun, leyfisferlum og samskiptum við íbúa og hagaðila. Sérstök áhersla verður lögð á gagnsæi og samráð við samfélagið og verða reglulegar kynningar haldnar um framgang verkefnisins.