Hvergerðingnum Arnari Dór Ólafssyni er margt til lista lagt. Hann útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2020 og hefur unnið að mörgum fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum síðan. Hann er titlaður sem kvikmyndagerðarmaður en segist vera allt í öllu; tökumaður, ljósmyndari, klippari og framleiðandi, svo eitthvað sé nefnt.
Alltaf haft áhuga á myndavélum
Arnar Dór hefur haft mikinn áhuga á myndavélum og myndefni frá því hann man eftir sér.
„Ég var alveg frá yngri árum að taka myndir og myndbönd á gamla myndavél hjá mömmu og pabba í ferðalögum um Ísland. Síðan fór ég að búa til alls konar Stop Motion-myndir með vini mínum með leikföngunum okkar sem þróaðist svo út í það að ég fékk mína fyrstu myndavél frá ömmu og afa og tölvu frá mömmu og pabba í fermingargjöf sem gerði mér kleift að taka fjölbreyttari myndir og búa til alls kyns myndbönd,“ segir Arnar Dór í samtali við Dagskrána.
![](https://i0.wp.com/www.dfs.is/wp-content/uploads/2025/01/Arnar-Dor.png?resize=696%2C845&ssl=1)
Stofnaði eigið framleiðslufyrirtæki
Eftir útskrift úr Kvikmyndaskólanum byrjaði Arnar Dór að vinna hjá framleiðslufyrirtækinu Skjáskot. Þar eru meðal annars framleiddar auglýsingar, sjónvarpsþættir, samfélagsmiðlaefni, hlaðvörp og beinar útsendingar. Auk þess tók hann einstaka sinnum að sér persónuleg verkefni eins og tónlistarmyndbönd eða auglýsingar fyrir samfélagsmiðla.
Hann hefur sagt skilið við Skjáskot og stofnaði nýlega sitt eigið framleiðslufyrirtæki, AD Production, þar sem hann tekur að sér alls kyns verkefni fyrir fólk og fyrirtæki og segist hann vera spenntur fyrir komandi tímum.
Hann segir starfið vera mjög fjölbreytt og skemmtilegt þar sem hann vinnur við samfélagsmiðla, auglýsingar, sjónvarpsþætti og ljósmyndun.
„Það getur verið TikTok-upptaka einn daginn og auglýsingaframleiðsla næsta dag. En alveg sama hvort verkefnið er stórt eða lítið þá fylgir því mikill undirbúningur og hellings eftirvinnsla svo sem klipping, grafík og litaleiðrétting svo fátt eitt sé nefnt. Að baki nokkurra sekúndna auglýsingu er yfirleitt margra klukkustunda vinna eða daga, allt eftir því hversu verkefnið er stórt,“ segir Arnar Dór.
Fór erlendis með LXS
Aðspurður að því hvað sé skemmtilegasta verkefni sem Arnar Dór hefur gert segist hann ekki geta nefnt eitthvað eitt.
„Það sem mér dettur fyrst í hug eru sjónvarpsþættirnir LXS þar sem ég sá um stjórn kvikmyndatöku. Mér er mjög annt um þá sjónvarpsþætti þar sem ég fékk einnig að stíga inn í framleiðsluna. Tökutímabilið var langt og því var þetta langur og skemmtilegur tími, það er það sem er mér efst í huga. Það hefur verið virkilega skemmtilegt að fylgja stelpunum eftir og einnig að ferðast með þeim erlendis, sem dæmi London, Gran Canaria og nú á síðasta ári Marokkó en þar lentum við í svaka ævintýrum. Það er mjög gaman að ferðast í nýju landi og upplifa nýja hluti sem ég hef ekki upplifað áður og á sama tíma að fá að fanga það á filmu. Það er ekki síst að þakka því frábæra fólki sem var með mér í þessu verkefni.“
Arnar Dór segist hafa unnið með mikið af áhugaverðu og skemmtilegu fólki í vinnunni.
„Það er svo mikið af skemmtilegu fólki í bransanum og svo er alltaf skemmtilegt að kynnast nýju fólki. Allir sem ég hef unnið með hafa verið áhugaverðir á sínu sviði, t.d. LXS stelpurnar, tónlistarmenn eins og Patrik Atlason, Daniil, Háski, Séra Bjössi og Lil Curly. Einnig hef unnið með flestum ráðherrum og fullt af samfélagsmiðlastjörnum.“
![](https://i0.wp.com/www.dfs.is/wp-content/uploads/2025/01/Arnar-Dor-Dubai2.png?resize=696%2C392&ssl=1)
Tók upp á símann sinn í Marokkó
Eins skemmtilegt og starfið hans Arnars Dórs er nefnir hann eitt atvik sem þótti ekki skemmtilegt en sé samt eitt það eftirminnilegasta.
„Ég var að ferðast með LXS til Marokkó í fyrra. Þar fórum við með helling af tökubúnaði sem þó var mjög takmarkaður þar sem við þurftum að fljúga með allt dótið, en búnaðurinn var líklega upp á 12 milljónir. Þegar við lentum í Marokkó var okkur ekki hleypt inn í landið þar sem þeir sáu upptökubúnaðinn. Ég var tekinn inn í bakherbergi á flugvellinum þar sem allar upplýsingar voru teknar og mér sagt að mér yrði ekki hleypt inn í landið með búnaðinn nema gegn virkilega hárri peningagreiðslu og sérstökum leyfum. Eftir óratíma af samningaviðræðum og veseni þá var ekkert annað að gera en að skilja allan búnaðinn eftir á flugvellinum og þar af leiðandi þurftum við að taka fyrstu tvo dagana upp á símana okkar á meðan við vorum að leita að tökubúnaði til að leigja í Marokkó. Síðan í lok ferðarinnar urðum við framleiðandinn að vera degi lengur í Marokkó til að leysa út búnaðinn með því að greiða mútufé og fengum lögreglufylgd með búnaðinn í gegnum öryggisleitina og þannig náðum við honum með okkur heim.“
![](https://i0.wp.com/www.dfs.is/wp-content/uploads/2025/01/Mutur.jpg?resize=696%2C464&ssl=1)
Arnar Dór segir það erfiðasta við starfið vera að vinna á óreglulegum og löngum vinnutímum marga daga í röð. Að hans mati er hins vegar ekkert leiðinlegt.
Utanlandsferðirnar standa upp úr
Árið 2024 var viðburðaríkt hjá Arnari Dór. Hann segir utanlandsferðirnar sem hann fór í standa upp úr.
„Í byrjun árs fór ég til Dubai til að taka upp tónlistarmyndband með Patrik Atlasyni (PBT) og Daníel Moroshkin (Daniil). Þangað var mjög áhugavert að koma og mjög frábrugðið því sem maður er vanur hér heima, þar er allt morandi í auði. Við fórum í svaka stórhýsi, fengum sportbíla og tígrisdýr í myndbandið svo eitthvað sé nefnt. Síðan fór ég til Marokkó til að taka upp sjónvarpsþættina LXS, þar stóð helst upp úr að gista í sandkastala í Sahara eyðimörkinni þar sem við túruðum á úlföldum og einnig loftbelg sem fór um 1300 metra upp í loftið. Í sumar fór ég svo til Króatíu með vinum mínum sem eru með fyrirtækin Reykjavík Warehouse og Happy Hydrate, en þar gerði ég alls kyns myndefni fyrir fyrirtækin ásamt hlaðvörpum. En þar stóð helst upp úr að þar voru allir nánir og góðir vinir að búa til skemmtilegt og flott myndefni saman.
![](https://i0.wp.com/www.dfs.is/wp-content/uploads/2025/01/Arnar-Dor-Dubai.jpg?resize=696%2C392&ssl=1)
![](https://i0.wp.com/www.dfs.is/wp-content/uploads/2025/01/Arnar-Dor-Marokko2.jpg?resize=696%2C870&ssl=1)
![](https://i0.wp.com/www.dfs.is/wp-content/uploads/2025/01/Arnar-Dor-Marokko.jpg?resize=696%2C870&ssl=1)
Þessa dagana er Arnar Dór að vinna að komandi markaðsherferð Done próteindrykkja framleiðandanum ásamt því að vera með alls konar verkefni í vinnslu, önnur á döfinni og margt sem er ekki enn komin tímasetning á. Hann stefnir að því að byggja upp framleiðslufyrirtækið sitt AD Productions og halda áfram að vinna að skemmtilegum og krefjandi verkefnum.