Hjónin Vigfús Blær Ingason og Christine Rae reka saman morgunverðarstaðinn Byrja sem staðsettur er að Austurvegi 3 á Selfossi. Veitingastaðurinn fagnar eins árs afmæli um þessar mundir og var þeim tímamótum fagnað um síðustu helgi. Öllum viðskiptavinum var boðið upp á köku og var brjálað að gera og helgin frábær að sögn Vigfúss.
Horfðu á rúturnar keyra í gegn
Aðspurður að því hvað fékk hjónin til að opna Byrja segir hann það lengi hafa verið draum þeirra að opna „diner“ á Íslandi.
„Christine er frá Kanada þar sem „diner-ar“ eru gjörsamlega út um allt. Þeir eru mjög rótgrónir í samfélaginu. Við bjuggum í Reykjavík í sjö ár þar sem við vorum alltaf að móta þessa hugmynd við og við. Svo fluttum við á Selfoss eftir að við eignuðumst börn og vorum í fæðingarorlofi þegar við flytjum. Við eignumst svo strax annað barn þannig að það var alltaf annað hvort okkar í fæðingarorlofi. Við áttuðum okkur á því að það einhvern veginn opnar ekkert fyrr en klukkan hálf tólf. Við horfðum á rútur af ferðamönnum og alla þessa bílaleigubíla keyra hérna í gegn snemma þegar maður var úti að labba með vagninn,“ segir Vigfús í samtali við Dagskrána.
Þá kviknar hugmyndin þeirra að opna morgunverðarstað sem opnar klukkan sjö á morgnana. Þá myndu þau ná þeim inn sem ferðast snemma. Vigfús segir þau hjónin ekki hafa ætlað að fara eins hratt í ferlið og þau gerðu en staðsetningin sem þau gátu fengið var of góð til að bíða.
„Svo opnaðist þetta pláss, þetta frábæra pláss með frábærri staðsetningu. Við þurftum bara að stökkva á þetta og láta vaða. Þetta er búið að vera ógeðslega gaman, með litlu stelpurnar okkar bara með okkur. Þess vegna til dæmis er leikhorn hérna fyrir börnin. Við áttuðum okkur á því hvað var erfitt að fara út að borða með börnin almennt. Það er rosa gott að geta leyft þeim að leika hérna og maður nær að drekka kaffið á meðan það er heitt,“ segir Vigfús.
Sesar mjög vinsæll
Byrja einblínir ekki eingöngu á morgunverði. Það er opið til 15 á virkum dögum og til 16 um helgar og ásamt morgunverði er líka boðið upp á samlokur, borgara, vefjur, súpur, salöt og fleira.
Aðspurður að því hver vinsælasti rétturinn sé eru nokkrir sem koma til greina. „Í hádegismatnum er það sesarkjúklingavefjan ásamt sesarsalatinu, svo er Byrja börgerinn fljótt á eftir. Í morgunmatnum er það morgunveislan, sem er stór bröns-diskur og ommelettan er orðin mjög sterk ásamt egg benedicts. Við bættum egg benedicts á matseðil bara núna í desember og hann er búinn að vera mjög sterkur síðan.“
Upphaflega var markmiðið að ná inn ferðamönnum og horfa á þá sem helsta markhópinn. Það breyttist þegar staðurinn opnaði.
„Við sáum hvað heimamaðurinn var duglegur að koma og að koma reglulega. Í sumar þegar allt var stappað af ferðamönnum hérna þá var alveg góð helminsskipting því það var svo mikið af ekki bara Selfyssingum heldur fólki hérna úr bæjunum í kring og sveitunum. Við áttuðum okkur á því að heimamaðurinn er okkar lykilkúnni. Það er það sem heldur manni gangandi eins og núna þegar það er minna um ferðamenn. Þá er bara rosalega gott að vita að fólk heldur áfram að mæta,“ segir Vigfús.
Leigja út salinn á kvöldin
Vigfús segir síðasta ár hafa gengið ótrúlega vel. „Þetta er auðvitað búin að vera mikil vinna, en við sáum fram á meira hark. Frá því að við opnuðum hefur verið fullt að gera. Núna þegar það kemur svona „slow season“ þá er bara gaman að geta einbeitt sér að alls konar hliðarverkefnum. Við erum búin að vera að keyra mat á skrifstofur og vinnustaði. Við erum með veislur og voða mikið að leigja út salinn á kvöldin, með þetta fína pláss hérna.“
Salurinn er leigður út í nánast hvað sem er, til að mynda einkapartý og vinahittinga. Staðurinn var líka að byrja í samstarfi við Gym 800 á Selfossi. „Ég er búinn að vera að fara á morgnana með vefjur og salöt og smoothie. Fólk er að háma í sig bara strax eftir æfingu. Ég hef alltaf þurft að fara í hádeginu að fylla aftur á. Það gengur mjög vel. Það er gaman að geta fókusað á þessi verkefni sem maður hafði engan tíma í í sumar,“ segir Vigfús.
Gera nesti fyrir stóra hópa
Vigfús segir þau hjónin ætla að halda áfram á sömu braut og síðasta ár en þau séu þó alltaf að prófa og fikta í matseðlinum. Ein nýjung hjá þeim er að leysa hópanestismál.
„Við erum að fá svolítið af rútum sem eru greinilega á hraðferð því þau vilja ekki stoppa neins staðar- það eru ferðamannarútur. Við græjum nesti fyrir rútuna. Ég bókstaflega stend hérna úti í rigningunni með kassa og rútan stoppar fyrir utan bókasafnið og ég stekk inn og hendi mat í alla og þau borða svo á leiðinni. Við erum bara að prófa okkur áfram og það er ógeðslega gaman,“ segir Vigfús að lokum.