-8.3 C
Selfoss

Á fimmta tug vinnur heima hjá sér í Hveragerði

Vinsælast

Í Hveragerði hefur verið starfræktur hópur fólks sem starfar að heiman frá sér í bænum. Sigríður Hjálmarsdóttir, menningar-, atvinnu- og markaðsfulltrúi bæjarins, kom hópnum á fót í október og hefur hann stækkað ört síðan. Margir starfa heima hjá sér í Hveragerði svo hópur sem þessi er kærkominn til að efla tengslin og brjóta upp hversdaginn. 

„Hugmyndin að stofnun þessa hóps kom upp í samtali okkar Sigurðar Markússonar í kjölfar fundar í menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd Hveragerðisbæjar. Nefndin hafði verið að ræða hverjir möguleikarnir væru varðandi einhvers konar skrifstofuhótel í bænum, vitandi að það eru margir sem starfa heima hjá sér. Við vorum áhugasöm að vita hversu stór hópur þetta væri og fannst kjörið að draga hann út úr húsi, hittast og mynda tengsl,“ segir Sigríður.

Ljósmynd: Aðsend.

Hún segir viðbrögð hafa verið mjög góð og Facebook-hópurinn Unnið heima í Hveragerði hefur nú á fimmta tug meðlima. „Hópurinn hefur þrisvar sinnum hist í hádeginu á mismunandi stöðum og það er einstakt að sjá hversu áhugasamir allir eru um að fræðast um verkefni og störf hvers annars. Meira að segja varð til samstarf tveggja aðila strax á fyrsta hittingi,“ segir Sigríður.

Sigríður segir störfin sem fólk vinni heima hjá sér séu mjög fjölbreytt. „Ég verð að segja að það kom mér nokkuð á óvart hversu mörg og margvísleg störf eru unnin frá heimahúsum í Hveragerði. Sem dæmi um störf þeirra sem hafa verið að mæta má nefna forritara, markaðsstjóra, jarðhitasérfræðing, grafískan hönnuð, áhættuleikara, skógfræðing, framkvæmdastjóra, fjármálastjóra og svo mætti áfram telja. Þetta hefur verið alveg ofboðslega skemmtilegt og ég hlakka mikið til að þróa þennan hóp áfram í samstarfi við meðlimi hans.“

Ljósmynd: Aðsend.

Aðspurð að því hvað sé framundan segir Sigríður að stefnan sé að brydda upp á ýmsum viðburðum fyrir hópinn, s.s. kynningar á fólki og fyrirtækjum, happy hour og fleira auk hinna mánaðarlegu hádegishittinga. „Meginatriðin eru að efla tengslin, gefa fólki tilefni til að kíkja út og hitta annað fólk, fræðast og hafa gaman. Við vitum að það getur verið hálfeinmanalegt að vinna mikið einn heima svo þetta er kjörinn vettvangur til að rjúfa þá einangrun og hitta áhugavert og skemmtilegt fólk.“

Nýjar fréttir