Siglt var með tækjabúnað á pramma út í Efri-Laugardælaeyju í Ölfusá fyrr í vikunni, sem nýta á við jarðvegsrannsóknir vegna byggingar nýrrar Ölfusárbrúar.
Vegagerðin greinir frá þessu.
Vegna flóða og jakaburðar í Ölfusá, sem sjaldan hefur verið vatnsmeiri, varð að sæta lagi við að koma búnaðinum út í eyjuna. Í byrjun vikunnar sjatnaði í ánni og gafst þá færi á að hefja flutningana frá austurbakka árinnar, en þar var búið að koma upp lendingu fyrir prammann. Félagar úr Björgunarfélagi Árborgar voru til öryggis á staðnum og fylgdust grannt með prammanum sigla á milli lands og eyju.
Berglög í Efri-Laugardælaeyju voru rannsökuð árið 2015 en nú verða gerðar enn frekari rannsóknir á samsetningu jarðvegarins því reisa á 60 metra háan turn sem mun bera uppi nýja Ölfusárbrú. Vegna verkhönnunar á undirstöðu fyrir turninn þarf að gera enn ítarlegri og nákvæmari rannsóknir á samsetningu jarðvegarins, að sögn Höskuldar Tryggvasonar, verkefnastjóra á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar.
Starfsfólk Vatnsborunar ehf. mun sjá um rannsóknirnar, en félagið er undirverktaki hjá ÞG verk sem sér um byggingu brúarinnar.
Nú er unnið við jarðvegsskipti á vegtengingum austan árinnar og einnig er búið að setja upp vinnubúðir austan við Laugardælaveg. Áætlað er að fljótlega hefjist vinna við bergskeringar vestan árinnar en það krefst þess að loka þarf göngustígnum í Hellisskógi. Eins og stendur er unnið að útfærslu á hjáleiðum fyrir gangandi vegfarendur nær árbakkanum.