Rennsli í Ölfusá hefur verið með mesta magni undanfarna daga. Það náði hámarki við Selfoss þegar rennsli mældist um 1400 m/3 15. janúar og hefur haldist nokkuð stöðugt síðan.
Vatn flæddi upp yfir bakka sína neðan við Lækjahverfi í fyrradag. ENsu greindi frá því. Ísstíflan við Flugunes hefur hins vegar gefið eftir og vatn sjatnað þar töluvert síðan í fyrradag. Ísstífla myndaðist í ánni frá Flugunesi og niður fyrir Ferjunes. Vatn flæðir yfir veginn að Kotferju og vatn flæðir yfir veginn að Arnarbæli, neðan við Auðsholtshjálegu. Miklir vatnavextir eru á austurbakka árinnar á þessum slóðum. Vatn tók að hækka skarpt um hádegisbilið í gær og rennur nú yfir veginn, tún og engjar. Ölfusforir eru eins og hafsjór yfir að líta.
Þetta er mesta rennsli sem mælst hefur síðan 2013 þegar hámarksrennsli náði rétt um 1430 m3/s við Selfoss. Hins vegar stefnir í að hámarksrennsli vari lengur nú og gæti því útbreiðsla flóðsins verið meiri.