Sigurður Kristmundsson er matgæðingur vikunnar.
Ég vil byrja á því að þakka Ægi Þór kærlega fyrir þessa áskorun. Þetta er svo sannarlega áskorun þar sem kraftar mínir eru geymdir á betri stað heldur en í eldhúsinu. Það er þó engin furða að hann hafi hugsað upp til sveita þegar kom að því að velja næsta aðila þar sem hann er mikið sveitabarn og unir sér þar vel.
Ég ætla að koma með lambapottrétt sem móðir mín Sigrún Guðlaugsdóttir á allan heiður af.
Þessi réttur er einfaldur og bragðgóður og tilvalinn til að krydda upp á skammdegið.
1 kg lambagúllas – steikt og svo bætt við 5 dl af vatni, suða sett af stað
½-1 púrrlaukur
1 laukur
2 græn epli
3 pressuð hvítlauksrif
Saxað og sett í pottinn
1 msk indverskt karrý
3-4 matskeiðar tómatpurre
2 msk sojasósa
1 vegleg tsk af cumin
1 stk kjötkraftur
Salt og pipar
Allt þetta soðið saman í 45 mínútur.
Þá er sett ½ líter af rjóma ásamt 2 msk af mango chutney og 1-3dl af vatni ef þarf.
Soðið áfram í 15 mínútur.
Berist fram með snittubrauði, hrísgrjónum, bönunum, kókosmjöli, salthnetum og hrásalati.
Ég vil síðan skora á mikinn matgæðing og meistarakokk hann Eirík Arnarsson að deila með okkur sinni uppskrift. Engin verður svikin af því að vera boðin í mat til Eiríks þar sem hann býður bragðlaukum manns í ferðalag.