Skömmu fyrir hádegi í dag fór órói sem mælist á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli að rísa nokkuð skarpt. Þessi hækkun í óróa tengist jökulhlaupinu sem nú stendur yfir og endurspeglar líklega aukningu í jarðhitavirkni vegna þrýstiléttis eftir að töluvert rúmmál vatns hefur farið úr Grímsvötnum. Svipaðar breytingar hafa sést í óróamælingum í tengslum við fyrri Grímsvatnahlaup svo þetta telst ekki óvenjulegt þegar hlaup nálgast hámarksrennsli. Að svo stöddu eru engin merki um aukningu í jarðskjálftavirkni eða gosóróa.
Þekkt eru dæmi um að eldgos verði í Grímsvötnum í kjölfar þrýstiléttis og því er enn óvissa um það hvernig þessi atburður mun þróast og ekki hægt að útiloka að eldgos verði. Vegna þessa, sem varúðarráðstöfun, hefur fluglitakóði fyrir Grímsvötn verið hækkaður í gulan að svo stöddu.
Vatnsmagn í Gígjukvísl heldur áfram að aukast jafnt og þétt en úrkoma á svæðinu hefur einnig áhrif. Áfram er gert ráð fyrir því að hámarksrennsli verði í Gígjukvísl um 1 – 2 sólarhringum eftir að rennsli nær hámarki úr Grímsvötnum.