Kaffisamsæti eldri borgara í Rangárþingi var haldið að Laugalandi í Holtum 11. janúar sl. Þetta er í þriðja sinn sem sveitarfélagið býður eldri borgurum að hitta kjörna fulltrúa, þiggja kaffiveitingar og njóta tónlistaratriða saman. Á milli 60 og 70 gestir mættu.
Hefð er fyrir því að heiðra samborgara ársins á þessari samkomu og í ár var það Pálína S. Kristinsdóttir sem hlaut titilinn. Að auki hlaut Jón Ragnar Björnsson sérstaka viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu eldri borgara og sveitarfélagsins.
Markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd kallaði eftir tilnefningum íbúa síðastliðið haust og barst fjöldi tilnefninga. Pálína hlaut flestar tilnefningar að þessu sinni og er vel að heiðrinum komin.
Pálína hefur staðið vaktina á Landvegamótum um áratugaskeið og þjónustað sveitunga og ferðalanga með bros á vör, lengst af samhliða Bergi eiginmanni sínum heitnum. Landvegamót hafa í gegnum árin verið mikilvægur samkomustaður þar sem allir eru velkomnir. Pálína hefur ekki síst tekið börnunum í sveitarfélaginu opnum örmum og hafa mörg ungmenni stigið sín fyrstu skref á vinnumarkaði á Landvegamótum.
Í viðurkenningu Pálínu segir að hún búi yfir einstakri þjónustulund og eljusemi sem eftir er tekið og stendur enn vaktina.
Jón Ragnar var um árabil einstakur félagi og drifkraftur í Félagi eldri borgara í Rangárvallasýslu. Einnig fær hann viðurkenningu fyrir störf sín í þágu sveitarfélagsins sem meðlimur í markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd á yfirstandandi kjörtímabili.
Í viðurkenningu Jóns segir að hann búi yfir einstakri framsýni, jákvæðni og eljusemi sem eftir er tekið.