8.9 C
Selfoss

Jarðvegsrannsóknir gerðar á nýrri Ölfusárbrú

Vinsælast

Framkvæmdir vegna byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá og færslu Hringvegar (1) út fyrir þéttbýlið á Selfossi hófust seint á síðasta ári. Unnið hefur verið við jarðvegsrannsóknir fyrir undirstöður brúarinnar, aðstöðusköpun og jarðvegsskipti í vegstæði Hringvegar (1) austan árinnar. Næst þegar veður leyfir verður tækjabúnaður fluttur á pramma yfir í Efri-Laugardælaeyju vegna jarðvegsrannsókna sem þarf að framkvæma þar. Einnig er áætlað að fljótlega hefjist vinna við vegskeringar vestan árinnar. Sú vinna hefur í för með sér að loka þarf göngustígum að skógræktinni. Unnið er að útfærslu hjáleiðar fyrir gangandi vegfarendur nær árbakkanum, sem hægt verður að nota fyrst um sinn.

Markmiðið með framkvæmdunum er að auka umferðaröryggi, draga úr umferðartöfum og mengun, stytta ferðatíma, styrkja atvinnulíf og efla lífsgæði íbúa og gesta á Suðurlandi. 

Verkið snýst um að færa Hringveginn (1) norður fyrir Selfoss og byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá. Nýr Hringvegur verður 2+1 vegur með aðskildum akstursstefnum, sem mögulegt verður að breikka síðar í 2+2 veg. Nýr vegur mun tengjast hringtorginu við Biskupstungnabraut. Veglínan austar Ölfusár verður um 1,7 km löng og fer um Svarfhólsvöll og tengist þaðan núverandi Hringvegi austan Selfoss. Heildarlengd nýs Hringvegar verður um 3,7 km. 

Einnig verður lagður nýr Laugardælavegur, auk tenginga við Gaulverjabæjarveg og Austurveg á Selfossi. Að auki verða byggð tvenn undirgöng fyrir gangandi, hjólandi og hestamenn, ásamt undirgöngum fyrir bíla og gangandi við Einholt, vestan Ölfusár. 

Nýja brúin verður 330 m löng og 19 m breið stagbrú með 60 m háum turni á Efri Laugardælaeyju. Hún mun leysa af gömlu brúna, en um 80 ár eru frá því að hún var byggð. Daglega fara um 14.500 ökutæki um Ölfusárbrú og má búast við að umferðin aukist enn frekar með fjölgun íbúa og ferðalanga. Auk umferðar mun nýja brúin bera uppi lagnir veituaðila, rafmagn, ljósleiðara, heitt vatn og kalt. Gert er ráð fyrir umferð bíla, gangandi og hjólandi um brúna. 

Nýjar fréttir