Fjórðu tónleikar Vetrartóna í Stokkseyrarkirkju fara fram næsta laugardag, 18. janúar, og hefjast kl. 17. Söngkonurnar góðkunnu Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Hildigunnur Einarsdóttir mezzó-sópran flytja blandaða söngdagskrá ásamt píanóleikaranum og organistanum Pétri Nóa Stefánssyni. Lagavalið hefur að geyma lög eftir Atla Heimi Sveinsson, Jón Ásgeirsson og Pál Ísólfsson og eru mörg af ástsælustu íslensku einsöngslögunum. Einnig verða fluttir velvaldir dúettar úr óratoríum og óperum eftir Pergolesi, Monteverdi og Humperdinck.
Aðgangur er ókeypis á alla tónleika Vetrartóna en tónleikagestum stendur til boða að leggja til frjáls framlög sem renna beint til tónlistarfólksins. Tónleikaröðin er styrkt af Tónlistarsjóði og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.