Undanfarið hafa verið breytingar á þeim læknum sem hafa áður verið fastráðnir við heilsugæsluna í Rangárþingi. Þessi breyting hefur valdið því að erfiðleikar hafa komið upp við að tryggja fullnægjandi læknisþjónustu á svæðinu. Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) sendi frá sér tilkynningu þar sem lýst er yfir miklum áhyggjum af þessari þróun og tekur stofnunin málið mjög alvarlega. Í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög er verið að leita allra leiða við að finna og ráða lækna sem eru tilbúnir að koma til starfa til langs tíma og þar með tryggja stöðugleika í læknisþjónustu í Rangárþingi.
Þangað til verður heilsugæslan mönnuð með afleysingarlæknum. Í janúar verða tveir læknar við störf á heilsugæslunni og einn læknir mun vera á bráðavakt utan hefðbundins dagvinnutíma. Í febrúar er búið að semja við einn íslenskan lækni. Til að auka aðgengi að læknisþjónustu enn frekar hefur HSU gert samning við norska ráðningastofu sem sérhæfir sig í ráðningum lækna og munu þeir tryggja heilsugæslunni í Rangárþingi eitt stöðugildi læknis næstu mánuðina og vonir standa til að læknir frá þeim verði kominn til starfa strax í febrúar. Önnur mönnun á heilsugæslunni er óbreytt og sjúkraflutningar eru ávallt á vakt allan sólarhringinn.
Í tilkynningunni færir HSU starfsfólki sínu innilegar þakkir fyrir ómetanleg framlög þeirra undir erfiðum kringumstæðum og þakkar jafnframt íbúum Rangárþings fyrir þeirra skilning og þolinmæði. HSU mun halda íbúum og sveitarstjórnarfólki upplýstum um gang mála. Þau eru einbeitt í áformum sínum að tryggja örugga og skilvirka læknisþjónustu í Rangárþingi til frambúðar.