Íþróttafólk Rangárþings ytra var verðlaunað við hátíðlega athöfn í safnaðarheimilinu á Hellu 11. janúar síðastliðinn. Fjöldi viðurkenninga var veittur. Það er Heilsu-, íþrótta og tómstundanefnd Rangárþings ytra sem kallar eftir tilnefningum og sér um að úthluta viðurkenningum.
Fjöldi fólks var mættur til að fagna með sínu fólki og kvenfélagið Unnur bauð upp á heimabakað kvenfélagskaffi.
Íþróttakona Rangárþings ytra árið 2024 er Hanna Rún Ingibergsdóttir. Hún hlaut titilinn „Gæðingaknapi Geysis“ hjá félaginu fyrir árið 2024. Árangur hennar á keppnisbrautinni var eftirtektarverður þar sem hún kom fram með gríðarlegan fjölda hrossa en það sem stóð hæst var án nokkurs vafa 3. sæti í A-flokki á Landsmóti hestamanna á hestinum Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk. Hanna Rún hefur einnig tekið virkan þátt í reiðkennslu hjá félaginu við virkilega góðan orðstír og er hún því skýrt dæmi um fyrirmynd innan sem utan vallar. Hanna Rún tók virkan þátt í keppni á árinu 2024 með góðum árangri í nánast öllum greinum hestaíþróttarinnar. Hanna Rún var valin í A-landslið Íslands í hestaíþróttum fyrir komandi tímabil.
Íþróttakarl Rangárþings ytra árið 2024 er Árni Björn Pálsson. Hann er fjölhæfur afreksknapi og var árangur hans á árinu 2024 ótrúlegur. Hæst ber að nefna sigur í A-flokki gæðinga á Landsmóti þar sem hann og Álfamær áttu frábærar sýningar en þau eru einnig í þriðja sæti á stöðulista í gæðingaskeiði. Átti Árni Björn einnig eftirminnilegar sýningar á Seðli frá Árbæ í A-flokki. Árni Björn er Íslandsmeistari í tölti á Kastaníu frá Kvistum, hlutu þau silfurverðlaun á Landsmóti í sömu grein og eru efst á WR-listanum í þessari grein í ár. Hann náði góðum árangri á skeiðbrautinni á hestum sínum Ögra frá Horni og Þokka frá Varmalandi. Árangur Árna var ekki einungis á keppnisvellinum heldur stóð hann sig vel á kynbótabrautinni. Hann sýndi 78 hross í kynbótadómi í 106 sýningum með frábærum árangri og átti margar eftirminnilegar sýningar á árinu. Árni Björn Pálsson er einstakur afreksknapi, sönn fyrirmynd fyrir elju sína, jákvæðni og fagmennsku í hvívetna og hann hlaut nafnbótina Knapi ársins 2024 á uppskeruhátíð Landssambands hestamannafélaga og deildar hrossabænda innan BÍ.