Undanfarna daga hefur mælst hægt vaxandi hlaupórói á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli. Það bendir til þess að jökulhlaup sé hafið úr Grímsvötnum. Jökulhlaup úr Grímsvötnum koma fram undan Skeiðarárjökli og renna í Gígjukvísl. Hlaupin eru vanalega hægt vaxandi og geta liðið nokkrir dagar þangað til fyrstu merki um hlaupvatn mælast á vatnamælingastöðinni í Gígjukvísl og aftur nokkrir dagar til viðbótar þangað til hlaupið nær hámarksrennsli. Nokkur úrkoma hefur verið á SA-landi og gert er ráð fyrir enn frekari úrkomu í dag og næstu daga. Úrkoman getur gert það erfiðara að greina fyrstu merki um hlaupið í Gígjukvísl.
Ef atburðarás verður svipuð og í síðustu hlaupum mun hámarksrennsli líklega verða seinni hluta vikunnar. Hlaupið ætti ekki að hafa nein áhrif á mannvirki, s.s. vegi og brýr.
Grímsvatnahlaup hafa orðið nærri árlega síðan í nóvember 2021 en þar áður 2018. Dæmi eru um að eldgos verði vegna þrýstiléttis í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Þó hafa jökulhlaup orðið mun oftar án þess að til eldgoss komi.